Að sögn Árna Tómassonar, formanns skilanefndar Glitnis, hefur samstarf við hóp kröfuhafa aukist jafnt og þétt undanfarnar vikur eftir fundi með þeim í nóvember og desember. Þá verður fyrsti fundurinn með almennum kröfuhöfum í byrjun febrúar.

Þetta kemur fram í viðtali við Árna í Viðskiptablaðinu í dag.

„Við höfum lagt áherslu á að veita lánardrottnum upplýsingar og opnuðum þannig vefsíðu strax í fyrsta mánuði. Það verður þó að hafa í huga að við verðum að vera varkár í að birta upplýsingar nema það sé til allra á markaði á sama tíma því upplýsingar sem við gefum geta verið verðmyndandi og við þurfum að gæta þess að jafnræði ríki."

Engum dylst að margt hefur breyst frá því að neyðarlögin voru kynnt og þar til núna þegar bankarnir eru reknir undir ákvæðum greiðslustöðvunar. Um leið hefur verið rætt um aðkomu erlendra kröfuhafa að rekstri bankanna. Árni var spurður að því hvort honum þætti raunhæft að þeir hefðu áhuga á slíku.

„Mér finnst ekki óraunhæft að ætla að einhverjir af erlendu lánadrottnunum hafi áhuga á að koma að eignarhaldi á íslensku bönkunum. Ég tel að þeir geri það ekki nema þeir telji sig vera að auka verðmæti eigna sinna með því. Þannig held ég að staðan sé í augnablikinu. Ég tel ekki útilokað að fleiri aðilar gætu haft áhuga á að eignast hlut í íslensku bönkunum og að menn sjái ýmis tækifæri á Íslandi í framtíðinni. Ég vil því alls ekki útiloka að það geti komið til."

_______________________________________

Nánar er fjallað um  málið í Viðskiptablaðinu í dag. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum. Þeir áskrifendur sem ekki hafa sótt um aðgangsorð til að lesa blaðið á vefnum geta gert það hér .