Um 50 vestnorrænir þingmenn, ráðherrar, yfirmenn björgunarmála ásamt þingmönnum annarra Norðurlanda, fagfólk og sérfræðingar munu taka þátt í þemaráðstefnu Vestnorræna ráðsins sem fer fram í Þórshöfn í Færeyjum dagana 5.-8. júní.

Ráðstefnan ber yfirskriftina: Björgunarviðbúnaður á Norður-Atlantshafi og möguleikarnir á að styrkja alþjóðlegt samstarf um björgunarmál.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Vestnorræna ráðinu.

„Það er mikilvægt fyrir Vestur-Norðurlönd, sem öll eru umlukin gífurlegu hafsvæði, að til staðar sé nógu öflugur björgunarviðbúnaður á Norður-Atlantshafi. Þess vegna hefur Vestnorræna ráðið skorað á ríkisstjórnir Vestur-Norðurlanda að auka samstarf og samráð um öryggis- og björgunarmál og lagt til að komið verði á sameiginlegum björgunaræfingum til að samræma viðbúnað og samhæfa viðbrögð við stórslysum á Norður-Atlantshafi,“ segir í tilkynningunni.

Karl V. Matthíasson alþingismaður og formaður Vestnorræna ráðsins segir að tilgangur ráðstefnunnar sé að skapa yfirsýn yfir samninga og samkomulag varðandi björgunarmál sem fyrir hendi eru á milli Vestur-Norðurlanda og annarra aðila og yfir þann björgunarbúnað sem er að finna á svæðinu.

Hann segir að ráðstefnan muni jafnframt gefa innsýn í þau brýnu verkefni sem svæðið stendur frammi fyrir í kjölfar loftslagshlýnunar og þess að Bandaríkjamenn drógu björgunarsveit sína frá Íslandi.

Í ljósi þessa munu menn ræða möguleikana á því og kosti þess að auka samstarf, sérstaklega á milli yfirvalda björgunarmála á svæðinu, og efla samhæfingu á þeim sviðum þar sem löndin hafa sameiginlega hagsmuni.

Farið verður yfir tvíhliða samninga sem Vestur-Norðurlönd hafa hvert fyrir sig gert við ýmis lönd auk þess sem ræddar verða hugmyndir um hvort mögulegt sé og æskilegt að gerðir verði á svæðinu fjölþjóðlegir samningar um viðbrögð við stórslysum eða umhverfisslysum.

Jafnframt verður rætt hvort hægt sé með aukinni samvinnu landanna að ná fram betri nýtingu á björgunarbúnaði og mannafla landanna og um leið að bæta viðbragðsgetu til að bregðast við stórslysi á svæðinu.

Sameiginlegar æfingar í fyrsta skipti

Í tengslum við þemaráðstefnu Vestnorræna ráðsins skipuleggja Landsbjörg og systrasamtök þeirra í Færeyjum, Landhelgisgæslur Íslands og Færeyja auk færeyskrar stjórnstöðvar danska sjóhersins sameiginlegar björgunaræfingar. Er það í fyrsta skipti sem þessir aðilar æfa allir saman. Bæði verður um sjó- og landbjörgunaræfingar að ræða.