Samskip hafa styrkt stöðu sína enn frekar í frystivöru- og flutningsmiðlun á Asíumarkaði að því er segir í fréttatilkynningu félagsins með samkomulagi við japanska umboðs- og flutningafélagið Interocean Shipping Corporation sem tekur að sér að vera umboðsaðili Samskipa í Japan, einhverjum umsvifamesta og mikilvægasta kæli-og frystivöruflutningsmarkaði í heiminum.

Í tilkynningunni kemur fram að samningurinn er enn eitt skrefið í þá átt að styrkja og efla þjónustu Samskipa í þessum heimshluta. Fyrir er félagið með skrifstofur í Pusan og Seoul í Suður-Kóreu, Qingdao og Dalian í Kína, sem og Ho Chi Minh borg í Víetnam.

Interocean Shipping Corporation er virt flutninga- og umboðsfyrirtæki í Japan, stofnað árið 1948 af Kitamura fjölskyldunni og fagnar því 60 ára starfsafmæli á næsta ári. Allt frá stofnun þess hefur fyrirtækið sinnt fiskflutningum og þjónustu við sjávarútveginn þó reksturinn hafi síðar þróast inn á fleiri svið.

?Það er okkur mikið ánægjuefni að verða hluti af flutninganeti Samskipa,? segir Kenta Kitamura, forstjóri Interocean Shipping Corporation. ?Japan hefur lengi átt viðskipti með frosnar fiskafurðir við Ísland, Noreg, Færeyjar og Holland og sterk staða Samskipa í þeim flutningum er okkur mikilvæg. Okkar styrkur liggur í traustum viðskiptum við öfluga inn- og útflytjendur í Japan, bæði með sjávarafurðir og aðrar frysti- og kælivörur, svo sem kjötvörur, ávexti og grænmeti.?

Auk þess að styrkja stöðu Samskipa í frystivöru- og flutningsmiðlun milli Evrópu og Asíu, skapar samstarfssamningurinn við Interocean Shipping Corporation einnig möguleika á auknum flutningum innan Asíu með hráefni og framleiðsluvörur.

?Samstarfið við Interocean er mikilvæg viðbót við sölustarfsemi okkar á þessum markaði og hagsmunir félaganna fara vel saman því bæði vilja efla þekkingu sína í greininni og auka markaðshlutdeildina á heimsvísu,? segir Kristján Már Atlason, sem nýverið tók við starfi framkvæmdastjóra hjá frystivöru- og flutningsmiðlun Samskipa, með aðsetur í Rotterdam í tilkynningunni.

Eftir kaupin á frystigeymsluhluta hollenska fyrirtækisins Kloosterboer árið 2005 geta Samskip boðið upp á geymslurými í tveimur frystivörugeymslum í Hollandi, í Rotterdam og IJmuiden, ásamt geymslurými í frystigeymslum félagsins í Reykjavík, Kollafirði í Færeyjum, Álasundi í Noregi og Bayside í Kanada.