Theodóra S. Þorsteinsdóttir, oddviti BF Viðreisn í Kópavogi sagði í þættinum Sprengisandi á Bylgjunni í morgun að staðan sem væri komin upp í Kópavogi væri mikil vonbrigði.

Hún segir að ekki sé vænlegt að þvinga núverandi samstarf áfram í ljósi þess hve mikil óánægja sé með það meðal kjörinna bæjarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins en þrír bæjarfulltrúar hafa lýst því yfir að þeim hugnist ekki að fara í samftarf með BF Viðreisn.

Hún segir þessa yfirlýsingu fulltrúana ver rýting í bakið á núverandi bæjarstjóra Ármann Kr. Ólafssyni og ljóst sé að upp sé komin mikil óeining meðal Sjálfstæðismanna í Kópavogi.

Theodóra segir jafnframt að  það hafi komið sér mjög á óvart að Margrét Friðriksdóttir hafi lýst því yfir að hún vildi ekki vinna með sér. Theodóra segir að hún sjálf hafi ávallt staðið í lappirnar í þeim málum sem komið hafi upp. Hún nefnir meðal annars að sér hafi þótt afar óþægilegt að skipulögð hafi verið ferð með bæjarfulltrúum á kostnað bæjarins.

Aðspurð hvort hún hafi talað við aðra flokka en Sjalfstæðisflokkinn segir hún: "Ég hef talað við Samfylkinguna sem hefur verið í sambandi við Pírata og reynt að finna einhverjar lausnir, ég held að það sé ekki góð staða fyrir Ármann að vera í svona veikum meirihluta. Ég held að það sé líklegast að Sjálfstæðisflokkurinn fari í samstarf með Framsókn og Margrét hafi því yfirhöndina."

Í lok þáttar sagði hún að hún gangi sátt frá borði og sé ánægð með hvernig núverandi meirihluta hafi tekist til.