Iceland Express hefur gengið frá samkomulagi við tékkneska félagið CSA Holidays, sem er í eigu CSA Airlines, um flug fyrir Iceland Express frá og með deginum í dag. Samstarfi við breska flugfélagið Astraeus er lokið. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Iceland Express. Bæði félögin, Iceland Express og Astraeus, eru í eigu Pálma Haraldssonar.

Ekki er gert fyrir neinni röskvun á áætlunarflugi vegna breytinganna. Í tilkynningu eru breytingarnar sagðar liður í í víðtækri endurskipulagningu sem nýir stjórnendur félagsins hafa ráðist í til aukinnar hagræðingar og bættrar þjónustu.

Úr tilkynningu:

„CSA Holidays og móðurfélag þess CSA Airlines eru með virtustu flugfélögum í Evrópu og hafa verið í fremstu röð hvað stundvísi varðar síðastliðin tíu ár. Samtök flugfélaga í Evrópu, Association of European Airlines, útnefndu CSA stundvísasta flugfélag Evrópu af tuttugu og sex stærstu flugfélögum álfunnar á árinu 2010 og allt bendir til þess að félagið muni varðveita þann sess á yfirstandandi á

Miklar vonir um bætta þjónustu Iceland Express við farþega sína eru bundnar við þennan ráðahag. Til viðbótar við gjörbreyttar aðstæður til bættrar stundvísi er flugvélafloti CSA bæði vandaður og öflugur. Vélarnar sem nýttar verða til flugsins fyrir Iceland Express eru af gerðinni Airbus-320. Þær taka 180 farþega og eru mun rýmri en þær flugvélar sem félagið hefur haft aðgang að hingað til. Önnur vélanna er smíðuð á þessu ári og hin árið 2004 og verða þær yngstu flugvélarnar í áætlanunarflugi á Íslandi og jafnframt fyrstu Airbus vélarnar sem þjóna flugi til og frá landinu.

Þjálfun flugliða Iceland Express til starfa um borð í Airbus flugvélunum hefst á næstu dögum og munu þeir innan skamms annast alla þjónustu um borð. Iceland Express hefur einnig hafið undirbúning að því að fá íslenskt flugrekstrarleyfi til þess að styrkja svigrúm sitt á samkeppnismarkaði enn frekar.

Með þessari breytingu er stórt skref tekið í átt til aukins áreiðanleika í þjónustu Iceland Express við farþega sína. Um leið er stoðum rennt undir bætta afkomu í rekstri félagsins enda öll frávik og tafir í áætlunarflugi afar dýrkeyptar. Til enn frekari hagræðingar hefur sumaráætlun næsta árs verið einfölduð frá því sem verið hefur og mun félagið einbeita sér að vinsælustu áfangastöðum sínum og leggja um leið grunn að áframhaldandi forystuhlutverki í þeirri miklu verðsamkeppni sem ríkir í flugi til og frá landinu.“