*

laugardagur, 8. maí 2021
Innlent 10. desember 2020 19:03

Samstarfið geti leitt þau hvert sem er

Samkaup hafa gert stefnumarkandi samstarfssamning við verslunarrisann Coop í Danmörku. Samkaup sjá gríðarleg tækifæri í samstarfinu.

Andrea Sigurðardóttir
Gunnar Egill Sigurðsson, framkvæmdastjóri verslunarsviðs Samkaupa.
Aðsend mynd

Samkaup hafa verið í innkaupasambandi við verslunarrisann Coop í Danmörku í um sextíu ár. Nýverið gerðu fyrirtækin með sér stefnumarkandi samstarfssamning á breiðari grundvelli en hvað innkaup varðar, sem Gunnar Egill Sigurðsson, framkvæmdastjóri verslunarsviðs Samkaupa, sér gríðarleg tækifæri í.

„Coop í Danmörku er eitt stærsta dagvöruverslunarfyrirtækið þar í landi. Fyrirtækið er að velta um 42 milljörðum danskra króna, sem samsvarar um 900 milljörðum íslenskra króna, sem er þrisvar sinnum meira en allur dagvörumarkaðurinn á Íslandi. Fyrirtækið rekur yfir þúsund verslanir og hefur um fjörutíu þúsund starfsmenn, þannig að það felast gríðarleg tækifæri fyrir okkur í Samkaupum í því að vera í samstarfi við svo stórt alþjóðlegt fyrirtæki. Við sjáum mikil tækifæri í því að taka þátt í þeirri tækniþróun sem er að eiga sér stað þar," segir Gunnar.

Gunnar segir samstarf verslunarfyrirtækjanna meðal annars ná yfir tæknilausnir og stafræna þróun, innkaup, vöruhúsarekstur og markaðsmál. Hann segir það í raun og veru geta leitt þau hvert sem er, "jafnvel hvað varðar starfsmannamál, þjálfun og svo framvegis."

"Það væri spennandi tækifæri fyrir okkar starfsfólk að geta farið í starfsnám til Danmerkur og öfugt, það er að danskir verslunarstarfsmenn geti komið í starfsnám til Íslands, til lengri eða styttri tíma," segir Gunnar.

Tímamótasamningur um stafrænar lausnir

Liður í samstarfi Samkaupa og Coop er samstarfssamningur Samkaupa við dótturfyrirtæki Coop, Lobyco, sem Samkaup tilkynntu um í dag. Samstarfið við Lobyco felur í sér þróun á stafrænum lausnum fyrir viðskiptavini Samkaupa.

Lobyco var stofnað í haust sem sjálfstætt dótturfyrirtæki Coop með það fyrir augum að selja stafrænar lausnir sem Coop hefur þróað til annarra landa. Hjá dótturfyrirtækinu starfa yfir 130 starfsmenn sem koma að þróun og útfærslu á stafrænum lausnum. 

Í tilkynningu frá Samkaupum er vitnað í Anders Mittag, markaðsstjóra Lobyco, sem segir samninginn við Samkaup vera fyrsta stóra samninginn þeirra:

"Þetta er mjög mikilvægt skref fyrir okkur og við erum spennt fyrir því að styðja Samkaup á þeirri stafrænu vegferð sem fyrirtækið er á. Þetta er fyrsti stóri samningurinn okkar og við erum nú þegar farin að vera vör við mikinn áhuga fyrir þjónustu okkar út um allan heim.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér