Íslenskar getraunir lækkuðu fyrir þetta tímabil í enska boltanum hlutdeild íþróttafélaga í sölutekjum af getraunum. Fram að
þessu hafa íþróttafélögin fengið 38% af sölutekjum í sinn hlut en frá síðastliðnum ágúst er hlutfallið 26%. Pétur Hrafn Sigurðsson, sölustjóri hjá Íslenskum getraunum, segir að fyrirtækið hafi ákveðið að lækka hlutdeild félaganna í áheitum tippara, þ.e. þegar tipparar merkja við að þeir vilji að íþróttafélagið sem þeir styðja njóti góðs af getraunaþátttökunni. „Áður skiptist hlutdeild félaganna þannig að þau fengu 22% í áheit og 16% í sölulaun en nú er fyrirkomulagið þannig að þau fá10% í áheit og 16% í sölulaun, sem sé 26% samanlagt,“ segir Pétur og bætir því við að ástæðu þessara breytinga megi rekja til þess að Svenska spel, samstarfsaðili Íslenskra getrauna í eigu sænskra ríkisins, hafi ákveðið að láta stærri hluta af sölunni fara í vinninga.

Salan aukist

„Vegna mikillar samkeppni frá einkaaðilum sem ekki hafa neitt samfélagslegt hlutverk hefur markaðshlutdeild Svenska spel á sænskum markaði minnkað mikið á undanförnum árum og því ákváðu þeir að hækka vinningahlutfallið úr 48% í 65% af sölutekjum til þess að bregðast við samkeppninni. Vinningsupphæð fyrir 13 rétta fór við þessa breytingu úr um 35 milljónum upp í um 76 milljónir. Við urðum einfaldlega að gera það sama þar sem við erum samstarfsaðilar þeirra,“ segir Pétur og bætir
við að samstarfið við Svenska spel sé Íslenskum getraunum lífsnauðsynlegt. „Þegar 65% af sölunni fer í vinninga getum við einfaldlega ekki greitt íþróttafélögunum 38% í áheit og sölulaun lengur þar sem þá er verið að greiða 103 krónur út fyrir hverjar 100 sem koma inn,“ segir hann.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð