Microsoft hefur valið hugbúnaðarfyrirtækið Annata "Samstarfsaðila ársins á Íslandi 2013" en Microsoft veitir þessa viðurkenningur þeim aðila sem skarað hefur fram úr í framboði og þjónustu á lausnum sem byggjast á vörum fyrirtækins af því er fram kemur í fréttatilkynningu frá Annata.

Annata var stofnað árið 2001 og hefur frá stofnun lagt áherslu á þróun og þjónustu á lausnum byggðum á Microsoft Dynamics AX viðskiptalausnum Microsoft. Á þessu sviði hefur fyrirtækið þróað lausnir fyrir bíla, véla- og tækjaiðnaðinn, sem eru samþættar við lausnir Microsoft og mynda heildarlausn til stuðnings rekstri fyrirtækja í þessum greinum. Með þessum lausnum hefur Annata náð að festa sig í sessi á alþjóðamarkaði og eru nú um 35 þúsund virk notendaleyfi á lausnum þess hjá fyrirtækjum um allan heim segir í fréttatilkynningu.

Vaxandi áhugi

"Hér á Íslandi hafa fyrirtæki að miklu leyti haldið að sér höndum frá efnahagshruninu 2008", segir Hjörtur Þorgilsson sem stýrir starfsemi Annata á Íslandi. "Það virðist þó vera að komast aukin hreyfing á hlutina og við verðum vör við vaxandi áhuga hjá fyrirtækjum á markaðnum fyrir því að uppfæra og styrkja viðskiptakerfi sín og njóta þar með nýjustu tækni sem Microsoft og Annata hafa," segir Hjörtur í fréttatilkynningu frá Annata.

„Annata er vel að þessum verðlaunum komið og við óskum starfsmönnum þess innilega til hamingju. Samstarf Microsoft og Annata hefur  verið einstaklega ánægjulegt fyrir okkur hjá Microsoft og Annata er gott dæmi um fyrirtæki sem hefur alla burði til frekari sigra hérlendis sem og erlendis." Segir Halldór Jörgensson framkvæmdastjóri Microsoft á Íslandi.