Tölvu- og símaframleiðandinn Samsung hyggst áfrýja niðurstöðu undirdómstóls í Bandaríkjunum um að fyrirtækið skuli greiða Apple rúmlega einn milljarð dollara í skaðabætur. Apple sakaði Samsung um að stela hönnun sinni fyrir snjallsíma og spjaldtölvur. Samsung hefur sakað Apple um að nota lög um einkarétt í Bandaríkjunum til þess að ráða yfir markaði snjallsíma.

Fyrirtækin tvö hafa deilt fyrir dómstólum víðar, meðal annars í S-Kóreu og Bretlandi.

Í umfjöllun BBC um málið er haft eftir talsmanni Samsung að niðurstaða bandaríska dómstólsins geti leitt til þess að færri snjallsímar verði í boði í framtíðinni og verð hækki. Neytendur muni því tapa á niðurstöðu dómara.