Raftækjarisinn Samsung sendi í dag út afkomuspá þar sem gert er ráð fyrir minni hagnaði á öðrum ársfjórðungi en gert hefur verið ráð fyrir hingað til. Samkvæmt frétt BBC höfðu sérfræðingar gert ráð fyrir því að rekstrarhagnaður fyrirtækisins yrði um 10,1 billjónir kóreskra wona, eða um þúsund milljarðar króna, en fyrirtækið spáir því nú að rekstrarhagnaður hafi verið um 9,5 billjónir wona.

Vinsældir snjallsíma Samsung hafa verið grunnurinn að velgengni fyrirtækisins undanfarin ár en veltuvöxtur í þeim geira hefur verið að minnka. Gengi hlutabréfa Samsung féll um 3,8% eftir að afkomuspáin var gefin út, en gengið hefur lækkað um ein 15% frá júníbyrjun.