Þrátt fyrir væringar og karp á milli tæknifyrirtækjanna Apple og Samsung og að því virðist endalaust málaferli á milli fyrirtækjanna þá hefur það ekki komið í veg fyrir samstarf fyrirtækjanna. Samsung hafði nefnilega betur í samkeppninni um þróun og framleiðslu á næstu kynslóð A-örgjörva fyrir Apple, þ.e. A8.

Framleiðsla á örgjörvunum mun hefjast í haust eða um svipað leyti og vani er að Apple kynnir nýja kynslóð iPhone-síma, að sögn netmiðilsins AppleInsider , sem sérhæfir sig í fréttum af Apple. A-örgjörvarnir knýja helstu tæki Apple, allt frá iPhone-símum til iPad-tölva.