Samsung er óheimilt að selja þrjár gerðir af Galaxy snjallsíma sínum í Evrópu, eftir ákvörðun dómstóls í Hollandi. Ákvörðunin er í kjölfar kæru Apple vegna brota á einkaleyfi, en síminn þykir líkur iPhone snjallsíma Apple. Apple telur að Samsung hafi nýtt tækni í Galaxy sem er bundin einkaleyfi og tengist ljósmyndatöku símans.

BBC greinir frá málinu og segir að sölubannið taki gildi eftir sjö vikur. Úrskurður dómara nær til fleiri landa Evrópu, segir í frétt BBC.

Dómari hafnaði þó flestum ásökunum Apple á hendur Samsung er varða brot á einkaleyfi. Þá var því hafnað að Samsung hafi stolið hönnun símans.