Raftækjaframleiðandinn Samsung hefur skrifað undir 6,6 milljarða dollara samning, andvirði 922 milljarða króna, við Verizon vegna 5G uppbyggingar í Bandaríkjunum. Samningurinn kemur í kjölfar þess að refsiaðgerðir Bandaríkjanna gagnvart kínverska fyrirtækinu Huawei aukast.

Sjá einnig: Örgjörvar Huawei að klárast

„Fleiri fyrirtæki munu nú leita til Samsung fyrir 5G búnað vegna hamla af hálfu Bandaríkjanna gagnvart Huawei og vegna gæðavandamála hjá Nokia,“ er haft eftir greinanda hjá SK Securities í frétt Financial Times.

Hann gerir ráð fyrir því að Samsung muni stækka 5G markaðshlutdeild sína á heimsvísu vegna hremminga Huawie. Á síðasta ári var markaðshlutdeild Huawei í fjarskiptabúnaði á alþjóðavísu um 28%, Nokia var með um 16%, Ericsson með um 14% og Samsung um þrjú prósent.