Lee Jae-yong, varaformaður stjórnar Samsung, og sonur Lee Kun-hee stjórnarformanns Samsung, er í vanda staddur en hann er flæktur inn í pólitískt spillingarmál sem tengdist forseta S-Kóreu, Park Geun-hye, sem ákærð var fyrir embættisbrot nýverið. Lee var fyrir málið talinn líklegur arftaki föður síns sem æðsti stjórnandi Suður-kóreska raftækjarisans. BBC greinir frá.

Fyrirtækið hefur verið sakað um að veita góðgerðasamtökum sem rekin voru af Choi Soon-sil, sem er einhvers konar andlegur leiðtogi og góð vinkona forsetans, dágóðar summur í staðinn fyrir pólitíska greiða. Til að mynda þá er talið líklegt að framlögin hafi verið greidd til þess að ríkisstjórnin myndi samþykkja umdeildan samruna sem Samsung stóð fyrir.

Lee verður yfirheyrður af sérstökum saksóknurum S-Kóreu í dag. Ekkert hefur heyrst frá Samsung vegna málsins.

Hægt er að lesa nánar um embættisbrot og spillingarmál Park Geun-hye og Choi Soon-sil hér og hér .