Ný íslensk auglýsing fyrir Samsung Galaxy S4 er kominn út. Auglýsingin skartar dansandi ninjum, íslenskri sauðkind og frumlegu myndmáli til að koma skilaboðunum áleiðis og sver sig þannig í ætt við auglýsingu frá nýliðnu sumri sem bar yfirskriftina „Fáðu þér síma sem skilur þig“ en sú auglýsing þótti frekar óvenjuleg.

Nýja auglýsingin sýnir svartklæddar ninjur þrengja að ungum manni með hvítum flekum og loka hann loks inni þar sem hann getur sig hvergi hreyft. Birtast þá skilaboðin:  „Fáðu þér síma sem veitir frelsi". Því næst brýtur ungi maðurinn sér leið til frelsis með því að sparka í gegnum einn flekann og fagnar síðan frelsinu með tilheyrandi dansgleði líkt og í fyrri auglýsingu. Auglýsingin endar síðan á sauðkind sem jarmar undarlega.

Einn af söluaðilum á Apple vörum á Íslandi, Skakkiturn ehf., kvartaði til Neytendastofu vegna auglýsingarinnar frá í sumar og krafðist þess að bann yrði lagt við birtingu hennar.

Aðspurður hvort ekki sé líklegt að Apple kvarti aftur sagði Sveinn Tryggvason, framkvæmdastjóri Tæknivara að ómögulegt væri að spá fyrir um hegðun manna í Skakkaturni. „Kvörtun þeirra frá í sumar var hálf kjánaleg og þeim ekki til framdráttar."

En er verið að skjóta á Apple og iPhone í nýju auglýsingunni? „Nei, þessi auglýsing fjallar um ágæti Samsung Galaxy síma, þeir ‘skilja íslensku’ og þeir eru ‘opnir og sveigjanlegir’. Það verður bara að hafa það þótt seljendur iPhone síma nagi sig í handarbökin yfir því að þeirra vara skilji ekki íslensku, virki ekki á 4G-kerfum eða skikki notendur til að nota iTunes fremur en eitthvað annað. Þannig eru þessi valkostir einfaldlega ólíkir og með sína kosti og galla. Margir iPhone notendur tóku ástfóstri við iPhone í árdaga snjallsímans þegar forskot Apple á keppinauta var sannarlega til staðar. Það forskot er hins vegar horfið í dag," segir Sveinn.