Samsung hefur nú opnað sitt fyrsta sýndarveruleikastúdíó í New York. Þar verður margmiðlunarefni fyrir sýndarveruleikabúnað á borð við Samsung Gear VR og Oculus Rift framleitt.

Tilkynnt var um stúdíóið á Sundance-hátíðinni í Utah á dögunum. Meðal annars var sagt frá margmiðlunarverkefnum á borð við flughermi, þar sem notandinn sér víðan himinblámann frá sjónarhorni fuglsins fljúgandi, og getur litið í kring um sig líkt og hann flygi í raun og veru.

Samsung hefur unnið með Oculus í heil tvö ár núna, en frá því að samstarf fyrirtækjanna hófst hefur hróður sýndarveruleikans farið stöðugt vaxandi. Tæknin nýtur nú mikillar athygli í fjölmiðlum - en Viðskiptablaðið hefur fjallað ítarlega um tæknina.

Sérlega er mikil gróska í sýndarveruleikatækni á Íslandi, en tölvuleikjafyrirtækið CCP hefur þegar gefið út leikinn EVE Gunjack þar sem spilandinn er settur í spor geimstríðsmanns sem þarf að skjóta niður óvini sína.