Suður-kóreski tæknirisinn Samsung Electronics hefur tilkynnt að fyrirtækið hyggist reisa snjallsímaverksmiðju í Víetnam. Áætlaður kostnaður við framkvæmdirnar er áætlaður um þrír milljarðar bandaríkjadollara, sem jafngildir um 354 milljörðum íslenskra króna. BBC News greinir frá þessu.

Samsung starfrækir þegar verksmiðju í Víetnam sem kostaði tvo milljarða bandaríkjadollara í byggingu en hún hóf framleiðslu í mars síðastliðnum. Útflutningsverðmæti snjallsíma frá Víetnam var 19,2 milljarðar dollara á fyrstu tíu mánuðum ársins, og hefur aukist um 8% frá sama tímabili á síðasta ári. Nemur það um 16% af heildarútflutningi úr landinu.

Sérfræðingar segja að samblanda af hagstæðu skattaumhverfi og ódýru vinnuafli geri Víetnam aðlaðandi fyrir framleiðslufyrirtæki, en fleiri stór tæknifyrirtæki hafa aukið við framleiðslu sína í landinu að undanförnu. Þar á meðal eru fyrirtækin Microsoft, Panasonic og Intel.