Lee Jae-yong, varformaður stjórnar Samsung, mun losna úr fangelsi á föstudaginn eftir að hafa setið inn í 18 mánuði. Hann var dæmdur í 30 mánaða fangelsi fyrir að hafa mútað fyrrum forseta Suður-Kóreu, Park Geun-hye, sem var dæmd í 20 ára fangelsi vegna málsins. Guardian segir frá.

Lee Jae-yong, sem er sagður stýra Samsung í reynd, sat upphaflega inni í eitt ár af fimm ára fangelsisdómi frá ágúst 2017 en fékk í kjölfarið reynslulausn. Þeirri ákvörðun var síðar snúið við en dómurinn styttur. Lee sneri aftur í fangelsi í janúar síðastliðnum.

Lee er meðal 810 fanga sem verða veittir reynslulausn fyrir sjálfstæðisdag Suður-Kóreau en hefð er fyrir því að veita fjölda fanga reynslulausn í tilefni af því að Kórea öðlaðist sjálfstæði frá Japan árið 1945. Á síðasta ári losnuðu 600 manns úr fangelsi á sjálfstæðisdegi Suður-Kóru.

„Ákvörðunin um að veita varaformanni stjórnar Samsung Electronics [...] reynslulausn var niðurstaða ítarlegrar endurskoðunar á ýmsum þáttum líkt og viðhorf almennings og góðrar framkomu hans,“ kom fram í yfirlýsingu dómsmálaráðuneytisins. Lee þarf þó leyfi frá dómsmálaráðherranum til að hefja störf að nýju.

Hann var hluti af stóru spillingarmáli sem felldi ríkisstjórn Park árið 2016. Dómstóllinn sagði að Lee hafi veitt mútur að andvirði 3,5 milljörðum króna og beðið þáverandi forsetann Park um að nýta stöðu sína til að hjálpa tæknifyrirtækinu í stjórnarskiptum sínum, eftir að faðir hans, Lee Kun-hee, var lagður inn á sjúkrahús árið 2014. Hann lést í október síðastliðnum.

Sjá einnig: 1.340 milljarðar króna í erfðafjárskatt

„Það er mjög óheppilegt að Samsung, stærsta fyrirtæki landsins og stolt alþjóðlegt nýsköpunarfyrirtæki, sé ítrekað hluti af glæpum í hvert sinn þegar breytingar verða við pólitísk völd,“ segir í úrskurði dómstólsins.

Bíða spenntir eftir Lee

Starfsmenn og fjárfestar Samsung vonast til að Lee muni nú ráðast í yfirtökur og ýmsar fjárfestingar, að því er kemur fram í umfjöllun Financial Times . Talið er að þetta muni felast í að auka yfirráð fyrirtækisins í örgjörvum ásamt því að bæta 5G og gervigreindartækni sína.

Nýjasta yfirtaka Samsung var 8 milljarða dala kaup á bandaríska hljóðtæknifyrirtækinu Harman International. Gagnrýnendur hafa haldið því fram að vandamál Lee hafi tafið fyrirtækið í að sækjast eftir frekari samningum.

Búist er við að Lee muni taka ákvörðunina um hvar næsta örgjörvaverksmiðja fyrirtækisins í Bandaríkjunum verði staðsett.