Nokkur Suður-kóresk stórfyrirtæki á borð við Samsung, Hyundai og sex önnur fyrirtæki hafa flækst inn í pólitískt spillingarmál sem nýverið leit dagsins ljós í Suður-Kóreu. Tengist málið meðal annars forseta landsins, Park Geun-hye, en pólitísk framtíð forsetans er að öllum líkindum ekki mjög björt.

Forseti landsins, Park Geun-hye, hefur óbeint hlotið milljónir dollara styrki frá fyrirtækjunum sjö. Nú stendur yfir bein útsending frá yfirheyrslu á forstjórum fyrirtækjanna sem sökuð eru um aðild að spillingu forsetans. Forstjóri Samsung hefur meðal annars viðurkennt það að hafa gefið dóttur vinkonu forsetans dýran veðhlaupahest.

Forkólfar viðskiptalífsins í Suður-Kóreu hafa viðurkennt það að hafa gefið sjóð sem er í eigu Choi Soon-sil, sem er staðsett í miðri hringiðju spillingarmálsins.

Í næstu viku verður kosið um pólitíska framtíð forsetans, en þingið undirbýr nú vantrauststillögu á frú Park. Upp á síðkastið hafa farið fram fjöldamótmæli í Suður-Kóreu, þar sem kallað er eftir afsögn forsetans.

„Suðurkóreskur veruleiki“

Þingnefnd spyr nú forstjóra fyrirtækjanna spjörunum úr um aðild sína að spillingarmálum, en hefur þó ekki vald til þess að refsa þeim. Formaður þingnefndarinnar hefur þó tekið fram að þetta væri tækifæri fyrir forstjóranna til þess að biðjast formlega afsökunar.

Einn forstjóranna hefur meðal annars sagt að það sé erfitt að neita ríkinu um hluti sem það biður um. „Það er hluti af Suðurkóreskum raunveruleika, sem gerir fyrirtækjum erfitt fyrir að neita beiðni ríkisins,“ sagði Huh Chang-soo forstjóri GS Group og formaður einna stærstu hagsmunasamtaka kóresk iðnaðar.