Ef 50 þúsund þeirra sem sóttu um skuldaleiðréttingu ríkisstjórnarinnar þurfa að skjótast frá vinnu til þess að sækja um rafræn skilríki samsvarar það um níu árum í fullri vinnu. Þetta segja Neytendasamtökin í umfjöllun á vef samtakanna.

Skilríkin eru gerð að skilyrði fyrir því að umsækjendur geti staðfest sinn útreikning á leiðréttingunni. Í umfjöllun Neytendasamtakanna segir:

„Hvort sem skilríkin eru á sérstöku korti eða í símanum þarf því að „skjótast“ í bankann. Þeir sem hafa „skotist“ í bankann vita samt að það eru engin örskot auk þess sem flest dagvinnufólk þarf að „skjótast“ úr vinnu. Gerum ráð fyrir að hvert „skot“ taki 20 mínútur og áætlum að 70.000 manns þurfi að „skjótast“ í bankann til að virkja skilríkin í þeim til að geta samþykkt leiðréttinguna. Gerum svo ráð fyrir að 50.000 þeirra vinni 9 til 5 vinnu (á opnunartíma banka), og þýðir þetta þá 16.666 klst. af vinnutíma sem fer í „bankaskot“, eða sem svarar hátt í níu árum í fullri vinnu.“

Einnig hafa samtökin reiknað það út að ef 50 þúsund manns velji að fá sér rafræn skilríki hjá Auðkenni muni það kosta samtals 75 milljónir króna. Hvert skilríki gildir í eitt ár og kostar 1.500 krónur. Það sé því til mikils að vinna fyrir eigendur Auðkennis, bankana, að koma rafrænum skilríkjum á koppinn sem fyrst.

Að lokum skora Neytendasamtökin á stjórnvöld að bjóða upp á aðrar leiðir en rafræn skilríki við að samþykkja leiðréttinguna.