Frá og með næsta þriðjudegi munu Icelandair samþætta starfsemi millilanda- og innanlandsflugs. Leiðarkerfi Icelandair og Air Iceland Connect verða eitt auk þess að sölu- og markaðsstarf sameinast undir merkjum Icelandair. Þetta kemur fram í tilkynningu.

Áfangastaðir um allt land verða sýnilegri á heimasíðu Icelandair í gegnum eina leit, einn farmiða og tengingu við leiðakerfið í Evrópu og Norður Ameríku. Þá mun tenging við Icelandair vörumerkið lyfta innlendum áfangastöðum upp alþjóðlega en vörumerki Icelandair er vel þekkt á lykilmörkuðum félagsins eftir áratuga uppbyggingu og fjárfestingu í sölu- og markaðsmálum.

Í tilkynningunni segir enn fremur að með þessu náist samlegðaráhrif í rekstri með sameiningu yfirstjórnar, stoðdeilda og kerfa. Flugrekstrarleyfi félaganna verða þó áfram aðskilin. Markmiðið með samþættingu félaganna er að tryggja sjálfbæra framtíð innanlandsflugs Icelandair Group sem og flugs á vestnorrænum markaðssvæðum, og á sama tíma styrkja og einfalda rekstur félagsins í heild.

Áfangastaðir í innanlandsflugi verða áfram Akureyri, Egilsstaðir, Ísafjörður og Vestmannaeyjar. Samstarf við Norlandair, sem boðið hefur upp á flug til Bíldudals, Gjögurs, Grímseyjar, Vopnafjarðar og Þórshafnar, mun taka breytingum en hingað til hefur verið hægt að bóka ferðir þangað í gegnum bókunarkerfi Air Iceland Connect. Eftir breytinguna verða þau aðeins í boði í gegnum vef Norlandair.

„Ég er sannfærður um að samþætting félaganna verði farsælt skref og muni stuðla að sterkara flugfélagi og betri flugsamgöngum. Íslendingar reiða sig á öflugt innanlandsflug og með þessu skrefi styrkjum við það enn frekar og ætlum okkur að bjóða samkeppnishæf verð og leggja áfram áherslu á persónulega þjónustu. Að því sögðu er um stórt og flókið verkefni að ræða sem við munum taka í nokkrum skrefum. Þess vegna leggjum við mikla áherslu á góð samskipti við viðskiptavini og samtal við helstu hagaðila um land allt um hvernig við þróum innanlandsflugið áfram með þarfir og upplifun viðskiptavina okkar í huga,“ er haft eftir forstjóranum Boga Nils Bogasyni í tilkynningu.