Kristján Þór Júlíusson sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hefur undirritað reglugerð um veiðar á 61 þúsund tonnum af loðnu í samræmi við uppfærða ráðgjöf Hafrannsóknarstofnunar.

Fiskifréttir sögðu frá því fyrr í vikunni að villa hefði komið í ljós við úrvinnslu bergmálsmælinga á stærð hryggningarstofns loðnu en við leiðréttinguna hækkaði stærð stofnsins um 19 þúsund tonn, eða upp í 338 þúsund tonn.

Þar með fór ráðlögð veiði úr 54 þúsund tonnum eins og Viðskiptablaðið hafði greint frá fyrir helgi í 61 þúsund tonn, en þetta verður í fyrsta sinn í þrjú ár sem hrygningastofninn mælist nægilega stór til að réttlæta veiðar úr honum.

Síðast þegar loðna var veidd við Íslandsstrendur reyndist útflutningsverðmæti aflans kringum 18 milljarðar króna. Útgefinn kvóti þá var að vísu umtalsvert meiri þá en nú, auk þess sem uppfylla þarf skiptisamninga um veiðar við nágrannaþjóðir sem nú eru samningar um hvernig standa beri að.

Kristján Þór gerði grein fyrir því á fundi ríkisstjórnarinnar í morgun að hann hefði undirritað reglugerðina, en jafnframt gerði hann grein fyrir því að rannsóknarskip Hafrannsóknarstofnunar, Árni Friðriksson, hafi farið af stað til mælinga síðastliðinn sunnudag.

Fjögur skip í frekari mælingum

Í dag fara þrjú skip frá útgerðum loðnuskipa til loðnuleitar og því munu samtals fjögur skip sinna mælingunum næstu daga. Auk þess eru tvö loðnuskip til viðbótar tilbúin að koma að verkefninu ef þörf verður á.

Veðurspá næstu daga auk spár um dreifingu hafíss úti fyrir Vestfjörðum gefur vonir um að það takist að fara yfir rannsóknasvæðið og að mæla stofninn að nýju á næstu dögum.

Verður áhersla lögð á svæðið úti fyrir norðanverðum Austfjörðum, fyrir Norðurlandi og Vestfjörðum en ekki hefur tekist að kanna þau svæði síðustu vikur sökum óveðurs og hafíss úti fyrir Vestfjörðum að því er segir á vef stjórnarráðsins .

„Það er mjög ánægjulegt að tekist hafi að afstýra að loðnubrestur myndi raungerast þriðja árið í röð. Þetta er vissulega ekki mikið magn en sú staðreynd að íslensk skip munu nú halda til veiða á loðnu er skref í rétta átt,“ segir Kristján Þór.

„Leitin heldur áfram af fullum þunga og í dag bætast þrjú skip við í þá leit. Það er enda mikið í húfi fyrir viðspyrnu efnahagslífsins að loðnuvertíðin verði eins öflug og kostur er.“