Arion banki hyggst kaupa eigin bréf fyrir allt að 10 milljarða króna. Alls ætlar bankinn að kaupa allt að 54,5 milljónir hluti, bæði í bréfum skráðum á Íslandi ásamt heimildarskírteinum útgefnum í Svíþjóð. Fjármálaeftirlit Seðlabanka Íslands veitti Arion í dag heimild fyrir endurkaupunum, að því er kemur fram í tilkynningu bankans. Ákvörðun um framkvæmd endurkaupaáætlunar verður tekin af stjórn Arion banka á næstunni.

Hlutabréfaverð Arion hefur hækkað nokkuð eftir að bankinn sendi frá sér tilkynninguna og sendur nú í 184 krónum, þegar fréttin er skrifuð.

Bankinn á í dag 111.509.630 eigin bréf og heimildarskírteini sem eru 6,72% af útgefnum hlutum í bankanum. Eftir fyrirhuguðu endurkaupin munu eigin hlutir bankans nema allt að 10% af útgefnum hlutum. Arion er heimilt að lækka hlutafé um 10% af útgefnum hlutum, til jöfnunar á eigin hlutum.

Sjá einnig: 70 milljarðar fari til hluthafa Arion

Arion tilkynnti á þriðjudaginn um að tæplega 8 milljarða króna endurkaupaáætlun sem hófst í lok júlí væri lokið. Bankinn keypti alls 46,5 milljónir hlutabréf skráð á Íslandi og 551 þúsund heimildarskírteini í Svíþjóð fyrir 7,93 milljarða króna.