Íbúðalánasjóður hefur samþykkt umsóknir um stofnframlög til uppbyggingar á 385 nýjum leiguheimilum í 11 sveitarfélögum. Alls nema stofnframlögin um 2 milljörðum króna. Þetta var kynnt á fundi hjá hagdeild Íbúðalánasjóðs í gær. „Þar kom einnig fram að 20.000 einstaklingar á aldrinum 20-29 ára búa nú í foreldrahúsum, um 6.000 fleiri en fyrir 10 árum, og að skýr merki séu um að framboð eigna á húsnæðismarkaði sé óeðlilega lítið,“  þetta kemur fram í fréttatilkynningu.

Una Jónsdóttir, hagfræðingur í hagdeild Íbúðalánasjóðs fjallaði um íbúðarmarkaðinn. „Í hennar máli kom m.a. fram að 8 af hverjum 10 á aldrinum 25-34 ára verða fasteignareigendur þegar lánsmöguleikar og framboð eigna er gott en aðeins 6 af hverjum 10 í sama aldurshópi þegar lítið framboð er eins og nú. Þá sagði Una að gæðum opinberra gagna um leigumarkaðinn sé stórlega ábótavant. Aðeins um 50% leiguíbúða séu sýnileg en Íbúðalánasjóður stefni á að bæta verulega gagnavinnslu um húsnæðismarkaðinn og auðvelda almenningi á að átta sig á stöðunni,“ segir einnig í tilkynningunni.