Fulltrúi Sádí-Arabíu í OPEC samtökunum, samtökum olíuútflutningsríkja, segir að ríkið sé tilbúið að skrifa undir samning um framleiðsluþak við önnur olíu-útflutningsríki jafnvel þótt að Íran sé ekki aðili að samkomulaginu. Þetta er talið vera mjög stórt skref í átt að takmörkunum á olíuframleiðslu, en fjöldi ríkja sem byggja afkomu sína á olíusölu hafa átt í miklum erfileikum vegna lækkunar olíuverðs undanfarið.

Hingað til hefur samkomulag strandað á því að sum ríki, s.s. Íran hafa ekki viljað samþykkja framleiðsluþak. Íran er t.d. enn að auka við framleiðsluna eftir að efnahagsþvingunum af aflétt af landinu í janúar á þessu ári.

Mörg af stærstu olíuframleiðsluríkjum heimsins munu hittast í Doha þann 17. apríl nk. til að ræða mögulegar takmarkanir á framleiðslu. Talið er að samkomulagið muni byggja á viðræðum Sádí-Arabíu, Rússlands, Katar og Venesúela, en samkvæmt þeim verður framleiðslunni sett hármark við framleiðslu hvers ríkis í janúar sl.

Fulltrúi Sádí-Arabíu í OPEC sagði að fjöldi ríkja væru tilbúin að samþykkja framleiðsluþakið og það væri ástæðulaust að gera samþykki Íran að skilyrði.

Financial Times greinir frá.