Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra og Taro Kono utanríkisráðherra Japans hafa staðfest samkomulag milli ríkjanna um gagnkvæm tímabundin atvinnuréttindi ungs fólks á milli ríkjanna.

Samkomulaginu er ætlað að efla viðskiptasamband ríkjanna með því að gefa ungu fólki frá báðum löndum tækifæri á því að kynnast atvinnulífi landanna. Nú þegar styðja japanska og íslenska ríkið ásamt þarlendum háskólum rausnarlega við unga námsmenn.

Auk þess hafa fjölmörg fyrirtæki ásamt Viðskiptaráði Íslands, Íslenska viðskiptaráðinu í Japan og Japansk-Íslenska viðskiptaráðinu ákveðið að styðja við verkefnið með fjármunum í ferðasjóð fyrir þá sem vilja nýta sér þetta tækifæri.

Lögðu ofangreindir aðilar, ásamt Össur, Icelandic Japan, Toyota á Íslandi, Hvalur, Hampiðjan Japan, Global Vision, Viking og Takanawa samanlagt 1,6 milljónir í sjóðinn sem vistaður verður hjá Japansk-íslenska viðskiptaráðinu í Reykjavík.

Segir í tilkynningu frá Viðskiptaráði Íslands að leitast verði við að efla sjóðinn enn frekar með framlögum frá áhugasömum fyrirtækjum. Jafnframt mun össur, sem hefur mikla starfsemi í Japan, auglýsa eftir ungu fólki frá Íslandi sem hefur áhuga á að koma til starfa hjá félaginu. Meðal annars til undirbúnings að aðkomu Össurar hf. að Ólympíuleikum fatlaðra árið 2020.