Yfirvöld í Bandaríkjunum hafa samþykkt hertar aðgerðir gagnvart Íran. Markmiðið er enn sem áður að neyða yfirvöld þar í landi til láta af allri vinnu og áætlunum um kjarnorkuvopn.

Nýjar reglur gera bandarískum fyrirtækjum meðal annars skylt að gera öll tengsl við írönsk fyrirtæki opinber yfirvöldum. Þetta kemur fram í frétt breska ríkisútvarpsins, BBC.

Áður hafa bæði Bandaríkin og Evrópusambandið sett bann við olíuviðskiptum við Íran. Ljóst er að bannið hefur haft áhrif til hækkunar olíuverðs. Ýmis lönd hafa þó litið hjá banninu og hafa Indverjar og Kínverjar meðal annars komist hjá því með að stunda vöruskipti, láta til dæmis hveiti í skiptum fyrir olíu, í stað beinna kaupa olíu.

Á næstu dögum mun koma í ljós hvort, og þá hve mikil, áhrif hertari aðgerðir hafa á olíuverð.