Öldungadeild Bandaríkjaþings samþykkti í gær eins billjón (e. trillion) dala innviðapakka með þverpólitískum stuðningi. Samkomulagið er mikill sigur fyrir Joe Biden Bandaríkjaforseta sem hefur kallað eftir aukinni innviðafjárfestingu, að því er kemur fram í frétt WSJ .

Eftir 50 klukkustundir af umræðum um 2.700 blaðsíðna frumvarp var það samþykkt. Alls kusu 69 öldungadeildarþingmenn með tillögunni, þar af nítján Repúblikanar, 30 þingmenn kusu gegn henni og einn sat hjá. Þingsæti í öldungadeildinni skiptast jafnt á milli Demókrata og Repúblikana og því þótti atkvæðtagreiðslan sýna þverpólitískan stuðning.

Innviðaáætlunin felur í sér 550 milljarða dala ríkisútgjöld í innviði á næstu fimm árum, þar á meðal í raforkudeilikerfi, vatnsleiðslur og önnur verkefni tengdu aðgengi að vatni ásamt fjárfestingum í öryggisinnviði. Alls verður 110 milljörðum dala varið í vegaframkvæmdir, þar á meðal í brúaframkvæmdir, 66 milljarðar dala fara í lestarkerfið, 65 milljarðar í uppbyggingu á háhraða netkerfi, 73 milljörðum verður fjárfest í hreina orku og nærri 40 milljarðar dala fara í flugsamgöngur.

Áætlað er að framkvæmdirnar muni auka halla bandaríska ríkisins um 256 milljarða dala á næsta áratug. Hönnuðir innviðapakkans hafa hins vegar haldið því fram að hann verði fjármagnaður að fullu með tekjuberandi aðgerðum, líkt og með því að endurúthluta 200 milljörðum dala sem átti að fara í Covid-19 stuðningsaðgerðir. Einnig verður endurgreiðslum (e. rebates) frá heilbrigðistryggingastofnuninni Medicare frestað og sótt í ónotað fjármagn sem átti að renna í atvinnuleysistrygginga. Þar að auki er stefnt að því að gera rafmyntafærslur skattskyldar sem gæti safnað allt að 30 milljörðum dala fyrir bandaríska ríkissjóðinn.

Tillagan verður nú lögð fyrir fulltrúadeild Bandaríkjaþings, þar sem meirihluti þingmanna eru Demókratar. Hins vegar hefur Nancy Pelosi, forseti fulltrúadeildarinnar, sagt að ekki verður kosið um innviðapakkann fyrr en öldungadeildin samþykkir aðskilda tillögu um að verja 3,5 billjónum dala í baráttuna gegn loftslagsbreytingum og til fjárfestinga í heilbrigðis- og menntakerfinu. Talið er að þær viðræður geti staðið yfir í nokkra mánuði.

Donald Trump, fyrrum Bandaríkjaforseti, gaf frá sér yfirlýsingu í gær vegna samþykkis öldungadeildarinnar. Trump beindi sjónum sínum að „ofmetnasta manninum í pólitík“ Mich McConnell, leiðtoga Repúblikana í öldungadeild Bandaríkjaþings, sem kaus með innviðapakkanum. „Enginn mun nokkurn tíma skilja af hverju Mitch McConnell leyfði þessari van-innviða (e. non-infrastucture) tillögu að fara í gegn,“ segir Trump.