*

laugardagur, 25. janúar 2020
Innlent 6. mars 2019 18:06

Samþykkja kaup Kviku á Gamma

Kaup Kviku banka á Gamma hafa verið samþykkt af Fjármálaeftirlitinu. Breska fjármálaeftirlitið þarf líka að samþykkja kaupin.

Ritstjórn
Ármann Þorvaldsson er forstjóri Kviku.
Aðsend mynd

Samkeppniseftirlitið hefur samþykkt kaup Kviku banka á öllu hlutafé Gamma Capital Management. Eins og Viðskiptablaðið fjallaði um í júnílok á síðasta ári ákvað Kvika banki að kaupa Gamma fyrir 3,8 milljarða króna, en í nóvember kom í ljós að endanlegt kaupverð nam 2,4 milljörðum króna að afloknum áreiðanleikakönnunum.

Skiptist fjárhæðin þannig að 839 milljónir króna greiddust beint við frágang viðskiptanna, en síðan yrðu greiddar 535 milljónir króna með hlutdeildarskírteinum í sjóðum Gamma. Loks nam árangurstengda greiðslan rétt rúmum milljarði.

Samþykktu hluthafar kaupin í desember síðastliðnum, en í viðtali við Ármann Þorvaldsson forstjóra Kviku banka verður Gamma áfram rekið sem aðskilið félag en aukin sérhæfing verði gerð á milli eininganna.

Samkvæmt tilkynningu til kauphallarinnar sem nú er birt kemur jafnframt fram að Fjármálaeftirlitið hefur metið Kviku hæft til að fara með yfir 50% eignarhlut í Gamma. Kaupin eru enn háð samþykki breska Fjármálaeftirlitsins, eða sem heitir á ensku Financial Conduct Authority.

Í tilkynningu Samkeppniseftirlitsins um samþykkt samrunans segir að samruninn nái eingöngu til eignastýringar, þar sem umsvif Gamma á örðum sviðum fjármálaþjónustu sem Kvika bjóði einnig upp á séu afar lítil.

Að undangenginni rannsókn er niðurstaða Samkeppniseftirlitsins sú að ekki séu fyrir hendi vísbendingar um að samruninn leiði til myndunar eða styrkingar markaðsráðandi stöðu samrunaaðila á neinum markaði. Jafnframt verður ekki séð að samkeppni á mörkuðum raskist að öðru leyti með umtalsverðum hætti.

Segja samrunaaðilana smáa og viðskiptabankana mun stærri

Á markaði fyrir stýringu verðbréfa- og fjárfestingarsjóða (sem standa almenningi til boða) hefur m.a. verið litið til þess að um sé að ræða samruna tveggja tiltölulega smárra aðila á markaðnum og samþjöppun markaðshlutdeildar eykst tiltölulega lítið.

Á markaði fyrir stýringu sjóða fyrir fagfjárfesta, þá búa samrunaaðilar m.a. við öfluga samkeppni frá stóru viðskiptabönkunum þremur, kaupendaaðhald almennra lífeyrissjóða og annarra fjársterkra aðila, auk þess sem allnokkur fjöldi smærri fyrirtækja býður upp á stýringu fyrir fagfjárfesta.

Þá hefur það þýðingu í þessu sambandi að því er Samkeppniseftirlitið segir, að stóru viðskiptabankarnir þrír eru hver um sig miklum mun stærri en sameinað félag samrunaaðila og njóta því mun meiri fjárhagslegs styrkleika heldur en hið sameinaða félag. Niðurstaða Samkeppniseftirlitsins að því sá að samruni þessi gefi ekki tilefni til íhlutunar.