Samkeppniseftirlitið hefur samþykkt kaup Kviku Banka á öllu hlutafé í Virðingu. Þetta kemur fram ákvörðun eftirlitsins sem birt var í dag.

Í ákvörðuninni segir að eftirlitið telji að samruni fyrirtækjanna muni ekki verða til þess að samkeppni raskist með umtalsverðum hætti. „Að undangenginni rannsókn og með hliðsjón af gögnum málsins og fyrri athugunum eftirlitsins er varða þá markaði sem samrunaaðilar starfa á hafa ekki komið fram vísbendingar um að samruni þessi komi til með að hafa skaðleg áhrif á samkeppni," segir í ákvörðuninni.

Í ákvörðuninni segir einnig: „ Ætla má að aukin stærðarhagkvæmni sameinaðs fyrirtækis á sviði eignastýringar verðbréfasjóða og fagfjárfestasjóða eftir samrunann geti skapað sameinuðu fyrirtæki betri skilyrði til að keppa við stóru bankana á sviði eignastýringar. Þannig gætu skapast færi á sækja fram með því að bjóða betri kjör, þ.e. lægri þóknanir fyrir stýringu sjóða og minni mun á kaup- og sölugengi verðbréfasjóða.

Þann 30. júní var greint frá því að eigendur 96,69% hlutafjár í Virðingu höfðu samþykkt tilboð stjórnar Kviku í hlutafé fyrirtækisins. Kaupin voru háð samþykki hluthafafundar Kviku og samþykkis eftirlitsstofnana. Samþykki Samkeppniseftirlitsins liggur nú fyrir