Fjármálaráðherrar evruríkjanna hafa ákveðið að veita Grikklandi allt að 86 milljarða evra. Ákvörðunin var tekin eftir að gríska þingið samþykkti skilyrði fyrir láninu þrátt fyrir uppreisn í ríkisstjórnarflokknum Syriza.

Verði lánið samþykkt af þjóðþingum evruríkjanna munu Grikkir fá 13 milljarða evra afhenta á fimmtudaginn í næstu viku, að því er segir í frétt Reuters. Alls munu Grikkir fá lánaða 26 milljarða evra áður en farið verður yfir frammistöðu gríska ríkisins í október á þessu ári.

Ekki er ljóst ennþá hvort Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn mun taka þátt í fjármögnun aðgerðanna, en sjóðurinn hefur lýst því yfir að nauðsynlegt sé að afskrifa hluta af skuldum gríska ríkisins, en það hafa evruríkin ekki viljað gera.