*

þriðjudagur, 26. október 2021
Innlent 27. maí 2021 14:39

Samþykkja samruna ferðaþjónusturisa

Samkeppniseftirlitið hefur fallist á sameiningu Eldeyjar og Kynnisferða. Úr verður eitt stærsta ferðaþjónustufyrirtæki landsins.

Ritstjórn
Hrönn Greipsdóttir, framkvæmdastjóri Eldeyjar, og Björn Ragnarsson, framkvæmdastjóri Kynnisferða.
Eva Björk Ægisdóttir

Samkeppniseftirlitið hefur fallist á sameiningu Eldeyjar og Kynnisferða. Úr verður eitt stærsta ferðaþjónustufyrirtæki landsins.

Viðskiptablaðið greindi frá því í sumar að til stæði að auka hlutafé þeirra um 800 milljónir króna til að takast á við stöðuna í greininni.  

Sjá einnig: 800 milljónir í nýjan risa

Með samrunanum munu dótturfélög Eldeyjar, Arcanum, Logakór og Sportköfunarskóli Íslands ehf., renna inn í sameinað félag auk 20% hlutar í Íslenskum heilsulindum. Sportköfunarskóli Íslands rekur köfunartengda ferðaþjónustu undir nafninu Dive en Logakór er fasteignafélag sem á meðal annars 51% hlutur í óskiptu sameignarlandi sem nær frá jaðri Sólheimajökuls niður að sjó en þar má finna hið víðfræga flak Douglas DC-3 flugvélarinnar á Sólheimasandi. Eldey á einnig hlut í Norðursiglingu sem verður ekki hluti af samrunanum.

Samkeppniseftirlitið taldi ekki ástæðu til að ætla að markaðsráðandi staða skapaðist við samrunann eða samruninn væri til þess fallinn að raska samkeppni. Í ákvörðuninni kemur fram að samrunaaðilar telji að sameiginleg hlutdeild þeirra á markaðnum fyrir heild- og smásölu skipulagðra ferða á Íslandi sé varlega áætlað á bilinu 5-10%. Þá sé óveruleg skörun milli þeirra félaga sem sameinist. 

Eldey, er félag um fjárfestingar í ferðaþjónustu og er í stýringu hjá Íslandssjóðum, dótturfélagi Íslandsbanka. Félagið er að mestu í eigu lífeyrissjóða.

Kynnisferðir eru í meirihlutaeigu Alfa hf. sem á 65% hlut. Alfa er að mestu í eigu bræðranna og fjárfestanna Einars Sveinssonar, Benedikts Sveinssonar og fjölskyldna. Þá á framtakssjóðurinn SÍA III 35% hlut í Kynnisferðum. SÍA III er að mestu í eigu lífeyrissjóða og er í rekstri hjá Stefni, dótturfélagi Arion banka.