Hluthafar Kviku og TM hafa samþykkt sameiningu fyrirtækjanna tveggja, auk Lykils fjármögnunar, dótturfélags TM, í kosningum á hluthafaföndum sem fóru fram klukkan fjögur í dag á Hilton Reykjavík Nordica.

Með samþykki hluthafanna er nú búið að uppfylla alla fyrirvara í samrunasamningi félaganna frá 25. nóvember síðastliðnum. Samkeppniseftirlitið heimilaði samrunann þann 26. febrúar síðastliðinn og Fjármálaeftirlitið veitti samþykki sitt fyrir samrunanum þann 9. mars.

Stjórnir félaganna gera ráð fyrir að kostnaðarsamlegð fyrirtækjanna muni skila 2,7-3,0 milljörðum króna, með einskiptiskostnðai innföldum. Áætlanir gera ráð fyrir að 200-300 milljónir króna kostnaðarsamlegð náist í ár, 900-1.050 milljónir árið 2022 og 1.200-1.500 milljónir eftir árið 2022.

Marinó Örn Tryggvason og Sigurður Viðarsson, forstjórar félaganna, munu áfram gegna stöðum sínum, þar sem Marinó verður forstjóri Kviku og Sigurður Viðarsson verður forstjóri dótturfélagsins TM trygginga.

Úr kynningu Kviku á hluthafafundi 30. mars 2021
Úr kynningu Kviku á hluthafafundi 30. mars 2021

Samsetning hins sameinaða félags. Tekið ú r kynningu Kviku fyrir hluthafafundinn í dag.

Sigurður Viðarsson, forstjóri TM:

„Sameining Kviku, TM og Lykils markar kaflaskil á vegferð sem hófst með stofnun Tryggingamiðstöðvarinnar hf. árið 1956. Sameinað félag er í senn gríðarlega öflugt og í einstakri stöðu til að auka samkeppni og fjölbreytni í fjármála- og tryggingaþjónustu á Íslandi, hluthöfum og viðskiptavinum sínum til hagsbóta. Ég er hluthöfum þakklátur fyrir þann eindregna stuðning sem samruninn fékk á hluthafafundi í dag og trú hluthafa á þeim ávinningi sem samruninn felur í sér er stjórnendum mikil hvatning í þeim verkefnum sem fram undan eru. Nú tekur við samþætting starfsemi þriggja félaga með það að markmiði að nýta það besta frá hverju félagi og mynda sterka heild sem er í stakk búin að vinna að velgengni samstæðunnar um ókomin ár. Tryggingaþjónusta sameinaðs félags verður áfram undir merkjum TM og rétt eins og allt frá árinu 1956 verður markmiðið óbreytt, að veita viðskiptavinum okkar framúrskarandi tryggingaþjónustu. Samruninn mun gera þjónustu okkar fjölbreyttari og setja kraft í þróun fjölbreyttra og nútímalegra þjónustuleiða í fjármála- og tryggingaþjónustu. Við hefjum þennan nýja kafla full eftirvæntingar."

Marinó Örn Tryggvason, forstjóri Kviku banka:

„Með sameiningu Kviku við TM og Lykil verður til eitt áhugaverðasta fyrirtæki landins. Sameinað félag verður meðal verðmætustu fyrirtækja í Kauphöll, enda um einn stærsta samruna síðustu ára að ræða. Undirbúningur sameiningarinnar hefur gengið vel og ég er starfsmönnum þakklátur fyrir hvað þeir hafa lagt á sig á undanförnum mánuðum í undirbúningsvinnunni. Fjármálafyrirtæki er hluti af mikilvægum innviðum samfélagsins og eru jafnmikilvæg hagkerfinu og samgöngur fyrir ferðalanga. Sameinað félag mun geta gegnt mikilvægu hlutverki í að fjármagna nauðsynlega viðspyrnu hagkerfisins sem og auka samkeppni á fjármálamarkaði. Líklega verða varanlegar breytingar á samskiptum, vinnubrögðum og lifnaðarháttum þegar samfélagið verður eðlilegra á ný. Nýjar venjur munu verða til og jafnvel þær rótgrónustu breytast. Alls staðar í kringum okkur eru fjármálafyrirtæki að leggja aukna áherslu á einfaldari og þægilegri þjónustu. Félagið er bæði fjárhagslega sterkt og með getu til þess að ná árangri í þessu umhverfi. Það felast mikil tækifæri í því að einfalda fjármálaþjónustu og með því auka markshlutdeild félagsins. Nú er verkefnið að láta tækifærin verða að veruleika."