Stjórnir Kviku banka og Virðingar hafa samþykkt áætlun um samruna félaganna undir nafni Kviku og miðast samruninn við 30. júní 2017.  Kaup Kviku á öllu hlutafé Virðingar voru samþykkt af Fjármálaeftirlitinu þann 6. september 2017 og hefur allt hlutafé Virðingar hf. verið afhent. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu til Kauphallarinnar.

Samruni félaganna er háður samþykki Fjármálaeftirlitsins en vonir standa til þess að samruninn gangi í gegn fyrir áramót.

„Þá hefur stjórn Kviku samþykkt að stefnt skuli að skráningu hlutabréfa bankans á Nasdaq First North. Unnið verður að skráningu á næstu vikum og er áætlað að henni ljúki fyrir árslok.

Með sameiningu Kviku og Virðingar verður til öflugt fjármálafyrirtæki sem er leiðandi á fjárfestingabankamarkaði. Sameinað félag verður eitt það umsvifamesta í eignastýringu á Íslandi með um 235 milljarða króna af eignum í stýringu og fjölda sjóða í rekstri,“ segir í tilkynningunni.