Fjármálaráðherrar ellefu aðildarríkja Evrópusambandsins (ESB) samþykktu á fundi sínum í Lúxemborg í gær að leggja skatt á fjármagnsflutninga landa á milli. Framkvæmdastjórn ESB hefur lagt til að 0,1% skattur verði lagður á viðskipti með hlutabréf og skuldabréf en 0,01% skattur á afleiðusamninga. Með skattlagningunni á m.a. að reyna að draga úr áhættufjárfestingum landa á milli og koma í veg fyrir að fjármálafyrirtæki dragi heilu löndin niður með sér þegar þau fara á hliðina.

AP-fréttastofan segir Þjóðverja og Frakka hafa mælt fyrir tillögu þessa efnis og ráðherra níu landa tekið vel í þær. Bretar og Hollendingar eru þeim hins vegar mótfallnir.

Þá segir fréttastofan að enn eigi eftir að móta tillögurnar.