Utanríkismálanefnd bandarísku öldungadeildarinnar hefur samþykkt val Donald J. Trump, Bandaríkjaforseta, á Rex Tillerson sem utanríkisráðherra. Frá þessu er greint í frétt BBC um málið.

Það munaði talsvert mjóu að Tillerson var samþykktur af nefndinni en 11 Repúblikanar samþykktu tilnefningu hans, en 10 Demókratar höfnuðu vali Trump. Brátt verður haldin atkvæðagreiðsla í öldungardeildinni (e. Senate) sjálfri, sem er stjórnað af Repúblikönum.

Fyrrum forstjóri ExxonMobil

Tillerson er 64 ára gamall. Líkt og Donald Trump hefur hann ekki neina formlega reynslu af utanríkismálum, en hefur þó starfað sem forstjóri alþjóðlega olíufyrirtækisins ExxonMobil stóran hluta ævi sinnar. Búist er við því að Tillerson muni eiga góð samskipti við Rússa, hann hefur meðal annars hlotið sérstaka vinagráðu Vladímírs Pútín Rússlandsforseta.

Talið er líklegt að þetta þýði að samskipti Rússa og Bandaríkjamanna komi til með að breytast talsvert á næstu árum og jafnvel að Bandaríkjamenn hætti þátttöku í viðskiptaþvingunum gegn Rússum.

Vegleg eftirlaun

Tillerson hlýtur veglegan starfslokasamning þegar hann sker á tengsl við fyrirtækið að því gefnu að hann verði staðfestur sem utanríkisráðherra af bandarísku öldungardeildinni.

ExxonMobil kemur til með að greiða Tillerson 180 milljón dollara eða því sem samsvarar um 20 milljarða íslenskra króna á næstu 10 árum, samkvæmt áætlun fyrirtækisins um starfslok forstjóra.

Þó mun Tillerson koma til með að selja öll hlutabréf sín í ExxonMobil, sem eru 600 þúsund talsins. Tillerson verður þó að setja milljónirnar í sjóð til að koma í veg fyrir hagsmunaárekstur.