Fjármálaráðherrar evruríkjanna hafa samþykkt umbótatillögur sem grísk stjórnvöld sendu frá sér í gærkvöldi. BBC News greinir frá þessu.

Tillögurnar taka til aðhaldsaðgerða og hagræðingar í ríkisrekstri í Grikklandi, en ef þær hefðu ekki verið samþykktar hefði fjögurra mánaða framlenging á neyðarláni til Grikkja ekki gengið eftir. Ekki eru þó allar hindranir úr vegi því nú þurfa þjóðþing evruríkjanna einnig að samþykkja tillögurnar.

Jeroen Dijsselbloem, fjármálaráðherra evruríkjanna, sagði á blaðamannafundi áður en tillögurnar voru teknar fyrir að Grikkjum væri mikil alvara að mæta þeim kröfum sem til þeirra væru gerðar og að þeir vildu standa við fjárhagslegar skuldbindingar sínar.