Samþykkt var á hluthafafundi stoðtækjafyrirtækisins Össurar í dag að greiða hluthöfum arð. Þetta er fyrsta skiptið í sögu fyrirtækisins sem slíkt er gert. Arðgreiðslan nemr 10 dönskum aurum á hlut en það svarar til 22% af hagnaði síðasta árs. Þá var samþykkt að það sem út af standi af hagnaði félagsins verði flutt yfir á næsta rekstrarár.

Arðgreiðslan jafngildir því að hluthafar fá um einn milljarð króna í arð. Samkvæmt því fær helsti hluthafinn, danski sjóðurinn William Demant Invest, 436,7 milljónir króna, danski lífeyrissjóðurinn ATP fær 65,7 milljónir og Lífeyrissjóður verslunarmanna 64,7 milljónir króna. Þá fær lífeyrissjóðurinn Gildi tæpar 58 milljónir króna.

Vildu kaupa fyrirtæki eða greiða arð

Tillagan er í samræmi við það sem Niels Jacobsen, stjórnarformaður Össurar, sagði á aðalfundi félagsins í fyrra. Þar sagði hann m.a. fyrirtækið hafa nýtt handbært lausafé til að styrkja reksturinn, s.s. með kaupum á öðrum fyrirtækjum. Stjórnendur hafi leitað að álitlegum fyrirtækjum til yfirtöku áfram. Engir kostir hafi verið í boði og árið nýtt til að koma fjármagni til hluthafa, annað hvort í formi arðgreiðslna, með endurkaupum á hlutabréfum eða með blöndu af báðum leiðum.