Samþykkt var á Alþingi í dag að Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, láti taka saman í skýrslu allar þær ákvarðanir sem opinberir aðilar, þar á meðal stofnanir ríkisins og dómstólar, hafa tekið í tengslum við Dróma, sem heldur utan um kröfur Spron og Frjálsa fjárfestingarbankans. Í skýrslunni á m.a. að koma fram stjórnunar- og eignatengsl allra þeirra sem hafa komið að ákvarðanatökum tengdum Dróma. Sama máli gegnir um stjórn og stjórnendur Dróma.

Jón Þór Ólafsson, þingmaður Pírata, fór fram á að skýrslan verði tekin saman. Á bak við beiðni um skýrsluna var þverpólitískur stuðningur. Auk Jóns Þórs fóru þau fram á beiðni um að skýrslan verði gerð píratarnir Birgitta Jónsdóttir og Helgi Hrafn Gunnarsson, Elsa Lára Arnardóttir í Framsóknarflokknum, þau Guðlaugur Þór Þórðarson, Ásmundur Friðriksson og Jón Gunnarsson, þingmenn Sjálfstæðisflokksins, auk Róbert Marshall og Páll Vals Björnssonar úr Bjartri framtíð og Viihjálms Árnasonar, SIgríðar Ingibjargar Ingadóttur og Valgerðar Bjarnadóttur úr Samfylkingunni.

Af hverju Drómi?

Þingmennirnir spyrja fimm spurninga sem á að svara í skýrslunni. Þær eru:

  1. Hvers vegna tekin var ákvörðun um að stofna Dróma hf. en ekki farin sambærileg leið og gert var með aðra banka og lánastofnanir.
  2. Kostnað við að skipta inneignum og útlánum, þ.e. kostnað við skuldabréf sem greitt er vegna innlána til Arion banka, hversu mikið Arion banki hefur hagnast á þessari ráðstöfun og hversu mikill kostnaður Dróma hf. er af skuldabréfinu.
  3. Hvers vegna ríkisábyrgð er á skuldabréfi útgefnu af Dróma hf. til greiðslu til Arion banka og hver sé vaxtamunur á skuldabréfinu til Arion banka og vöxtum á innlánum þeim sem fóru í Arion banka og skuldabréfinu er ætlað að bera kostnað af?
  4. Slitastjórnir við slitameðferð Frjálsa fjárfestingarbankans og SPRON, hverjir sitji í þeim slitastjórnum og öðrum stjórnum og hver kostnaður hafi verið vegna þessara stjórna, jafnt kostnaður slitastjórna sem annar kostnaður.
  5. Viðskipti stjórnarmanna í slitastjórnum við eigin fyrirtæki.