Samþykki þjóðin Icesave-samninginn í þjóðaratkvæðagreiðslu mun það þó ekki duga eitt og sér til þess að losa um gjaldeyrishöft á Íslandi. Frá þessu greinir Morgunblaðið og vísar í Kathrin Muehlbronner, sérfræðing matsfyrirtækisins Moody’s í lánshæfi Íslands. Hún segir sömuleiðis að verði samningnum hafnað muni það leiða til þess að hagkerfið verði lengur í viðjum hafta en ella. Eins og fram kom á vb.is á miðvikudag er það mat Moody’s að lánshæfiseinkunn ríkissjóðs verði sett í ruslflokk verði samningnum hafnað af þjóðinni.

Muehlbronner, segir staðfestingu Icesave aðeins vera skref í átt að afnámi hafta og segir fleiri skrefa þörf.

Eins og fram kom í fréttaskýringu í Viðskiptablaðinu 3. febrúar sl. er mikilvægt að huga að mörgum þáttum, sér í lagi þó að gengi krónunnar verði nægilega stöðugt.