Kristín Þ. Flygenring, sem var fulltrúi Bankasýslu ríkisins, í stjórn Arion banka segir að hún hafi „átt við ofurefli að etja“ gegn launakröfum Höskuldar Ólafssonar þáverandi bankastjóra að því er Fréttablaðið greinir frá.

Eins og sagt var frá í fréttum í byrjun mánaðarins fékk bankastjórinn fyrrverandi 150 milljónir króna í starfslokagreiðslu. Var um að ræða uppgreiðslu tveggja ára uppsagnarfrests en hann hafði verið framlengdur um hálft ár sumarið 2017.

„Mér fannst það of vel í lagt“ segir Kristín en viðkvæðið sem hún hafi fengið hafi verið að menn hafi endilega viljað halda í Höskuld þar sem útboð og skráning bankans var á næstu grösum og reynslumikill stjórnarmaður nýhættur. „Því samþykkti ég þetta með semingi.“

Studdur af erlendum stjórnarmönnum

Kristín segir að hann hafi þegar verið með starfslokasamning upp á 1,5 árslaun þegar hún hafi sest í stjórn bankans árið 2014, í stjórnartíð ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur. „Mér þótti það ærið á þeim tíma enda viðtekið að menn í slíkum stöðum fái eitt ár í starfslokagreiðslur,“ segir Kristín og bendir á að bankinn hafi þá þegar innleitt kaupaukakerfi.

„Höskuldur var alltaf mjög harður í launakröfum,“ segir hún jafnframt en í þeim hafi hann alltaf verið studdur af erlendum stjórnarmönnum bankans. „Mér fannst þessar launakröfur út úr korti og afar slæmar fyrir orðspor bankans.“

Kristín bendir á að hún hafi setið hjá í atkvæðagreiðslu árið 2018 þegar Höskuldur hafi farið fram á milli 13 og 17 prósenta launahækkun, sem tengist auðvitað beint starfslokagreiðslunni nú.

Leiðarar, pistlar og skoðanadálkar um Arion banka:

Fleiri fréttir um málefni Arion banka: