*

föstudagur, 3. júlí 2020
Fólk 10. nóvember 2019 18:01

Samþykkti milljarða fjárfestingar

Arnar Þór Másson hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri hjá Isavia, en síðustu ár ferðaðist hann mikið á vegum þróunarbanka

Höskuldur Marselíusarson
Nýr framkvæmdastjóri hjá Isavia, Arnar Þór Másson, vildi breyta um starfsvettvang eftir 15 ár í stjórnarráðinu.
Eyþór Árnason

„Isavia er flott fyrirtæki með mikla möguleika sem stjórnendur vilja taka áfram, enda held ég að fólk vilji breytingar. Mitt hlutverk verður að styðja við reksturinn í stefnumótun og mannauðsmálum en þegar stefnan er skýr og fólk veit hvert er verið að fara, þá nær starfsfólk mestum árangri,“ segir Arnar Þór Másson nýr framkvæmdastjóri mannauðs og stefnumótunar hjá Isavia.

„Eftir að þriggja ára skipunartími minn í stjórn Endurreisnar og þróunarbanka Evrópu úti í London var liðinn, langaði mig að prófa eitthvað nýtt eftir að hafa verið í 15 ár í stjórnarráðinu. Ég hafði alltaf verið í stefnumótun og árangursstjórnun, var til að mynda að vinna að fækkun ráðuneytanna árið 2010 úr 14 í 8 og svo aflaði ég mér jafnframt mikillar reynslu og þekkingar úti hjá bankanum enda lánar hann eða fjárfestir fyrir 10 milljarða evra á ári.“

Arnar Þór segir hlutverk EBRD bankans vera að styðja við uppbyggingu einkafyrirtækja í austur Evrópu, fyrrum Sovétlýðveldum, auk Mongólíu og ríkjanna í kringum Miðjarðarhafið, en Arnar Þór hefur meiri tengingu við einkamarkaðinn en halda mætti af margra ára starfi fyrir ríkið.

„Frá árinu 2001 hef ég setið í stjórn Marel, sem þá var áhugavert, en ekkert sérstaklega stórt íslenskt fyrirtæki sem var að velta einhverjum 50 milljónum evra. Ísland er með staðbundinn stjórnarmann í bankanum í þrjú ár af hverjum níu, en öll verkefni fara í gegnum stjórnina,“ segir Arnar Þór sem fékk tækifæri til að heimsækja ýmis verkefni bankans.

„Við fórum til Jórdaníu, Armeníu, Albaníu, Bosníu og svo Georgíu þar sem bankinn hafði fjármagnað virkjanir og metan strætóa í höfuðborginni Tiblisi. Ólíkt Alþjóðabankanum og öðrum þróunarbönkum vinnur EBRD aðallega með einkafyrirtækjum en í þessum löndum eru stjórnmál oft mjög tengd inn í reksturinn, og við vorum oft komnir inn á skrifstofur forsætis- eða fjármálaráðherra smærri landanna. Þó bankinn sé að ýta undir einkavæðingu á alls konar þjónustu í þessum löndum þá er enn hellingur eftir og fengum við mikla innsýn í hvernig er að stunda viðskipti í nýmarkaðslöndum þar sem ekki er alltaf hægt að treysta á að lög og regla séu skýr og þeim framfylgt.“

Arnar Þór er giftur Ásdísi Káradóttur skjalastjóra hjá Nýsköpunarmiðstöð Íslands, og eiga þau fimm börn. „Við erum týpísk íslensk fjölskylda með samsettan hóp og krakka á aldrinum 6 til 22 ára. Ég hef mjög gaman að því að spila golf og svo erum við Ásdís mjög virk í alls konar útiveru, fjallamennsku og fórum við til að mynda í sumar í árlega gönguferð með góðum vinahópi sem er búinn að fara saman í 10 ár, í þetta sinn í Griðland að fjallabaki, þá er oftast gengið um 20 kílómetra á dag.“

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta gerst áskrifendur hér.