Hluthafafundur Vinnslustöðvarinnar samþykkti hvort tveggja tillögu minnihlutans um rannsókn á lánveitingum til starfsmanna og tillögu meirihlutans um að beita sér fyrir rannsókn Landsbankans á afskriftum til Guðmundar Kristjánssonar. Eins og Viðskiptablaðið sagði frá fyrir helgi var ljóst fyrir fram að hluthafafundurinn sem haldinn var í morgun yrði átakafundur.

Brim hf., félag í eigu Guðmundar Kristjánssonar sem nýlega keypti ríflega þriðjungshlut í HB Granda, hafði upphaflega krafist aukahluthafafundar í Vinnslustöðinni en félagið skipar minnihlutann í stjórn félagsins. Viðskiptablaðið hefur ítarlega fjallað um deilur milli minni- og meirihlutans í Vinnslustöðinni, en nú snýst málið um lánveitingar og afskriftir á þeim til tveggja lykilstarfsmanna í kjölfar bankahrunsins.

Brim vildi rannsókn á niðufellingu á lánum fyrir 12 milljónir

Fór Brim fram á það að rannsókn yri gerð á lánveitingum Vinnslustöðvarinnar til tveggja starfsmanna, hvors um sig, árið 2008 sem felld voru niður árið 2017. Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins hljóða lánin upp á um 6 milljónir króna hvert um sig.

Fór Brim fram á að upplýst yrði um hvaða forsvarsmenn Vinnslustöðvarinnar hefðu tekið ákvarðanir um lánin, hvenær þau hefðu verið veitt, hvort skriflega hafi verið gengið frá þeim, fjárhæð, vaxtakjör, endurgreiðsluskilmála, uppgjör, bókhaldsmeðferð og svo hvort félagið hafi veitt öðrum en þessum tveimur lán frá árinu 2014.

Vilja að Landsbankinn rannsaki milljarðaafskriftir til Guðmundar

Stærsti hluthafinn, Seil ehf., sem myndar meirihluta ásamt nokkrum heimamönnum og lífeyrissjóði Vestmannaeyja, fékk á móti samþykkta sína tillögu sem beinist gegn Guðmundi Kristjánssyni eiganda Brims.

Samkvæmt henni munu bæði Seil og Vinnslustöðin, sem eiga hvor um sig hlut í Landsbankanum leggja fram á hluthafafundi bankans að rannsókn fari fram á skuldaafskriftum bankans sem nemi milljörðum króna til félaga tengdum Guðmundi frá því í bankahruninu.

Báðar tillögurnar voru samþykktar því einungis 10% hluthafa þurfti að samþykkja tillögu Brims til stjórnar Vinnslustöðvarinnar, en meirihlutinn dugði til að samþykkja tillögu Seilar um að beita sér fyrir rannsókn á hluthafafundi Landsbankans. Samkvæmt ársreikningi Vinnslustöðvarinnar fyrir árið 2016 á Seil ehf. 37,3% og Brim hf. rétt tæplega 30% í félaginu.