*

sunnudagur, 24. október 2021
Innlent 30. ágúst 2019 16:04

Samþykktu endurkaup hjá Heimavöllum

Tillögu hluthafa um að birta ítarlegar upplýsingar um seldar eignir félagsins var vísað frá.

Ingvar Haraldsson
Arnar Gauti Reynisson, framkvæmdastjóri Heimavalla.
Haraldur Guðjónsson

Á hluthafafundi Heimavalla í dag var samþykkt heimild til endurkaupa á allt að 337,5 milljónum hluta í félaginu, eða sem samsvarar 3% hlutafjár. Gengi bréfa í Heimavöllum stendur nú í 1,18 krónum á hlut og því er markaðsvirði 337,5 milljóna hluta í Heimavöllum tæplega 400 milljónir króna. 

Einnig var ákveðið að vísa frá tillögu Magnúsar Einarssonar fyrir hönd Efniviðar ehf. um að birta ársfjórðungslega „ greinargóðar upplýsingar um sölu fasteigna félagsins þar sem fram komi samtölur og meðaltöl, brotin niður á póstnúmer, varðandi fermetrafjölda, fjölda íbúða, fasteignamat, bókfært verð og söluverð pr. íbúð og pr. fermetra,“ eins og það er orðað í tillögunni.

Sjá einnig: Boða endurkaup hjá Heimavöllum

Magnús taldi að upplýsingarnar myndu vera til þess fallnar að auka gagnsæi og umræðu um félagið og þar með bæta verðmyndun og aukinna viðskipta með bréf félagsins. 

Heimavellir birtu uppgjör í morgun þar sem fram kom að hagnaður á fyrri helmingi ársins hefði numið 3 milljónum króna samanborið við 136 milljóna króna tap á sama tímabili í fyrra. Félagið hefur selt eignir fyrir 6 milljarða króna á fyrri helmingi ársins. Meirihluti hluthafa Heimavalla samþykkt fyrr á þessu ári að afskrá félagið en Kauphöllin hafnaði beiðninni um afskráningu.

Hér má sjá frekari fréttir um Heimavelli og markaðinn fyrir íbúðaleigufélög:

Stikkorð: Heimavellir