Skilmálabreytingar á skuldum Upphafs fasteignafélags hafa verið samþykktar, þar með talið að fastir vextir á skuldabréfum félagsins lækki úr 15-16,5% í 6% að því er Fréttablaðið greinir frá. Jafnframt verður gefið út viðbótarskuldabréf upp á milljarð króna sem unnið er með fjárfestum að því að klára skilmálana á.

Eigendur skuldabréfanna hafa þó rétt á vaxtaauka upp að gömlu vaxtaprósentunni, af útistandandi höfuðstól skuldabréfanna á hverjum tíma, ef afkoma félagsins verður betri. Loks verður gjalddagi höfuðstóls bréfanna framlengdur um ár, frá 30. maí 2021 til 30. maí 2022, sem jafnframt verður eini vaxtagjalddagurinn.

Félagið segir skilmálabreytingarnar hafa verið nauðsynlegar til að ljúka viðbótarfjármögnun með nýju skuldabréfi að fjárhæð 1 milljarður króna. Eins og Viðskiptablaðið hefur fjallað ítarlega um tapaði félagið 1,1 milljarði króna á síðasta ári, sem aftur rýrði afkomu tryggingafélaga og fleiri félaga. Meðal stærstu skuldabréfaeigendanna er fjárfestingarfélagið Stoðir, TM og félag í eigu Guðbjargar Matthíasdóttur aðaleiganda Ísfélags Vestmannaeyja.

Með um 280 íbúðir í byggingu

Fyrir fundinn hafði fjárfestum verið kynnt áætlun nýs stjórnendateymi Gamma um að tryggja framgang framkvæmda á vegum fasteignafélagsins Upphafs, sem er að fullu í eigu fagfjárfestasjóðsins Novus sem er í stýringu hjá Gamma.

Upphaf er nú á hápunkti framkvæmda með 277 íbúðir í byggingu og eru áætluð lok allra framkvæmda í lok árs 2020. Áætlunin miðar að því að tryggja tekjur af sölu íbúða og hámarka virði eigna. Til þess að áætlunin gangi eftir er unnið með fjárfestum að því að klára skilmála hins nýja skuldabréfs.

Frá því í júlí hefur nýtt stjórnendateymi Gamma unnið að því að endurmeta stöðu Novus og Upphafs. Sú vinna leiddi í ljós að eigið fé Upphafs hafði verið ofmetið og kostnaður var vanmetinn. Viðskiptablaðið sagði frá því að framkvæmdakostnaður hefði verið umfram áætlanir sem og framvinda verkefna hefði verið ofmetið, en einnig bárust fréttir um grun um óeðlilegar greiðslur .

Réðu Grant Thornton til að fara yfir málin

Nú segir stjórn Gamma ljóst að tryggja þurfi Upphafi viðbótarfjármögnun til að tryggja framgang verkefna á vegum félagsins og tekjur af sölu eigna svo hámarka megi virði eigna. Greining nýs stjórnendateymis leiddi í ljós fjárþörf upp á um einum milljarði til að ljúka fjármögnun uppbyggingar á vegum félagsins.

Eftir að raunstaða Novus og Upphafs kom í ljós var Fjármálaeftirlitið upplýst um stöðu sjóðsins og í framhaldi fjárfestar og skuldabréfaeigendur með sérstöku upplýsingablaði og segist stjórnin líta málið mjög alvarlegum augum.

Þá hefur stjórnin ráðið Grant Thornton sem óháða sérfræðinga til þess að fara yfir málefni Novus og Upphafs. Á grundvelli niðurstöðu úttektar þeirra verður lagt mat á hvaða frekari aðgerða verður gripið til að upplýsa um málið. Jafnframt munu stjórnendur vinna með haghöfum að frekari upplýsingaöflun og verður fundur eigenda sjóðsins boðaður innan skamms.

Mikilvægt skref til að tryggja milljarð til viðbótar

Máni Atlason framkvæmdastjóri Gamma segir félagið hafa unnið að endurmati á stöðu Upphafs frá því í júlí.
„Samþykki kröfuhafa félagsins fyrir skilmálabreytingum er mikilvægt skref í átt að viðbótarfjármögnun sem tryggir framgang verkefna og hámörkun eigna eins og nýtt stjórnendateymi hefur lagt áherslu á,“ segir Máni.

„Við munum áfram kappkosta að reka smiðshöggið á endurskipulagningu félagsins sem fyrst og við munum áfram leggja áherslu á að komast til botns í því hvað fór úrskeiðis og upplýsa haghafa um það.“

Fagfjárfestasjóðurinn GAMMA: Novus var stofnaður árið 2013. Stofnfé sjóðsins nam um 2,5 milljörðum króna, en árið 2017 greiddi sjóðurinn um 850 milljónum kiróna til baka til eigenda í hlutfalli við eignarhlut þeirra.

Fagfjárfestasjóðurinn GAMMA: Novus á fasteignaþróunarfélagið Upphaf fasteignafélag að fullu. Félagið hefur frá stofndegi byggt og selt yfir 400 íbúðir á höfuðborgarsvæðinu og hefur nú eins og áður segir tæplega 280 íbúðir í byggingu.

Hér má lesa frekari fréttir um málefni fjárfestingarsjóða Gamma, það er Anglia, Novus og Upphafs: