*

mánudagur, 18. janúar 2021
Innlent 22. október 2020 15:51

Samþykktu sölu á 15% í HS Veitum

Bæjarráð Hafnarfjarðar samþykkir að selja í HS Veitum fyrir 3,5 milljarða. Minnihlutinn vildi bíða eftir peningum frá stjórnvöldum.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Meirihluti bæjarráðs í Hafnarfirði hefur samþykkt að selja 15% hlut sinn í orkufyrirtækinu HS Veitur með atkvæðum fulltrúa Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks og óháðra.

Áður en tillagan var samþykkt hafði minnihlutinn borið fram tvær tillögur, annars vegar um íbúðakosningu og hins vegar um frestun þar til fyrir liggi hver aðkoma stjórnvalda verði að rekstrarvanda sveitarfélaganna.

Eins og Viðskiptablaðið greindi frá á þriðjudagskvöld nemur söluandvirði hlutarins 3,5 milljörðum íslenskra króna, en kaupandinn er Eignarhaldsfélagið HSV, sem þar með eignast tæplega helmingshlut í orkufyrirtækinu.

Meðal stærstu hluthafa HSV eignarhaldsfélags eru Frjálsi lífeyrissjóðurinn, Almenni lífeyrissjóðurinn, Gildi lífeyrissjóður og Ursus, fjárfestingafélag Heiðars Guðjónssonar, forstjóra Sýnar.

Félagið eignaðist þriðjungshluti í HS veitum árið 2014 með kaupum af sveitarfélögum á Suðurnesjum og OR á 3,14 milljarða króna, svo þá var fyrirtækið metið á 9,1 milljarð en á tæplega 23 milljarða miðað við söluandvirði hlutar Hafnafjarðarbæjar.

Salan dragi úr lánsþörf og þar með afborgunum til framtíðar

Í bókun minnihlutans, en í honum sitja fulltrúar Samfylkingar, Viðreisnar, Miðflokks og Bæjarlista, segja þeir mikilvægt að framkvæma íbúakosningu um jafnumdeilt mál, þar sem einkavæðing opinberra orkuinnviða hafi ekki verið á stefnuskrá nokkurs flokks, og málið snerti bæði framtíðartekjur og fyrirkomulag eignarhalds á orkuinnviðum.

Fulltrúar meirihlutans svöruðu með bókun um að það væri fagnaðarefni að mjög gott verð fengist fyrir hlutinn í HS Veitum og með sölu til félags að 90% í eigu lífeyrissjóða væru hlutirnir áfram í eigu almennings. Jafnframt væri áfram um minnihlutaeign í orkufyrirtækinu að ræða.

Salan drægi úr lánsþörf og þar með afborgunum og vaxtagreiðslum bæjarins til framtíðar, sem og að niðurstaða undirskriftasöfnunar sýni og staðfesti að ekki sé tilefni til að halda íbúakosningu.

Vildu bíða eftir peningum úr ríkissjóði

Eftir fundarhlé ákvað minnihlutinn að leggja fram aðra tillögu um frestun þar til fyrir liggi hver aðkoma ríkisins verður að rekstrarvanda sveitarfélaga, en áður hafði minnihlutinn bókað að það væri grundvallarmunur á tilgangi lífeyrissjóða og sveitarfélaga með eign í grunninnviðum.

Lífeyrissjóðir væru fagfjárfestar sem bæri skylda til að skila arði en hann yrði einungis sóttur í vasa notenda þjónustunnar, meðan markmið sveitarfélaga með slíkri eign væri að tryggja þjónustu á hagstæðum kjörum. Þannig hafi arðgreiðslur aukist til muna síðan kaupandi hlutarins keypti fyrst í orkufyrirtækinu, og sú þróun muni nú halda áfram sem auki áhættu fyrir verð þjónustunnar til notenda.

Fulltrúar meirihlutans létu nægja að vísa í fyrri bókun og samþykktu fyrirliggjandi tilboð í hlutinn. Tillagan var samþykkt með þremur atkvæðum meirihlutan en fulltrúar minnihlutans greiddu atkvæði á móti.

Því næst bókuðu fulltrúar minnihlutans furðu á afstöðu meirihluta til sölu hlutarins á þessum tímapunkti. Í röksemdarfærslu fyrir sölunni vanti mikilvæga þætti um hagsmuni bæjarbúa, og sterk rök séu á að ríkissjóður muni stíga inn með afgerandi hætti til að bæta fjárhagsstöðu sveitarfélaga.

Loks bókaði meirihluti Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks eftirfarandi:

Ákvörðun meirihluta bæjarráðs í dag er tekin að vel ígrunduðu máli, með hag íbúa og bæjarfélagsins að leiðarljósi.

Stikkorð: HS Veitur orkuveita