Grímsnes- og Grafningshreppur hefur tekið tilboði að fjárhæð 181 milljón króna í eignir og veiðirétt sveitarfélagsins og Búgarðsmanna við Sog. Þetta kom fram í fréttablaðinu Sunnlenska í gær. Til sölu var veiðiréttur, veiðihús og strandlengja Sogsins í ásgarði ásamt eignarhluta Búgarðsmanna í tveimur lóðum og lögbýlisrétt Ásgarðs.

Sjö tilboð bárust og samþykkti sveitastjórnin hæsta boðið. Boðið er samþykkt með fyrirvara um fjármögnun og segir í Sunnlenska haft eftir Ingibjörgu Harðardóttur, sveitarstjóra sveitarfélagsins, að þess vegna sé ekki hægt að gefa upp nafn tilboðsaðila að svo stöddu. Það verði hins vegar, ásamt upplýsingum um upphæð annarra tilboða, birt á næstu vikum.

Hlutur sveitarfélagsins verður að þessu loknu 126,7 milljónir.