Magnús Harðarson, forstjóri Kauphallarinnar, segir engan vafa á því að þörfin á virkum samtökum almennra fjárfesta hafi aukist síðustu misseri .

Auk þess að gæta hagsmuna almennra fjárfesta gætu þau stuðlað að og miðlað ráðgjöf til sinna félagsmanna. Engin bein fjárfestingaráðgjöf er í boði hér á landi án greiðslu, og ljóst er að áskriftargjald að greiningum getur átt erfitt með að borga sig ef upphæðirnar sem fjárfest er fyrir eru ekki háar.

„Það væri til bóta ef hér væru virk regnhlífarsamtök almennra fjárfesta þar sem meðlimir greiddu aðildargjöld en fengu í staðinn fræðslu, ráðgjöf varðandi réttindi og almenna hagsmunagæslu. Samtök sparifjáreigenda eru í kjörstöðu til að verða slík samtök nú þegar einstaklingum sem fjárfesta á hlutabréfamarkaði hefur fjölgað mjög.

Í krafti stærðar ætti t.d. að verða grundvöllur fyrir slík samtök að semja við greiningarfyrirtæki um kaup á greiningarskýrslum um skráð hlutabréf á stórnotendaafslætti fyrir meðlimi sína. Með samstarfi við hið gróskumikla félag Ungir fjárfestar mætti efla slíkt starf enn frekar og ná til yngra fólks. Allt þetta myndi styrkja stöðu almennings á hlutabréfamarkaði,“ segir Magnús.

„Eins fljótt og auðið er“ virðist teygjanlegt
Fjármálaeftirlitið hefur síðastliðin ár lagt sérstaka áherslu á að skráð fyrirtæki sinni upplýsingaskyldu sinni skilmerkilega, meðal annars með sektum þegar það telur svo ekki vera. Lagaramminn veitir hins vegar nokkurt svigrúm til túlkunar, enda eðli innherjaupplýsinga og tilkynningarskyldu á köflum matskennt. Þá eru dæmi um að markaðsaðilar nýti sér lagarammann til hins ýtrasta.

Með innleiðingu samræmdrar Evrópulöggjafar um verðbréfaviðskipti var frestur til tilkynningar um innherjaviðskipti lengdur í hámark fjóra virka daga, úr hádegi daginn eftir viðskipti. Lögin segja þó, rétt eins og þau gömlu, að slíkar upplýsingar skuli birtar „eins fljótt og auðið er“, en nýleg dæmi eru um að slíkar tilkynningar berist á fjórða virka degi, tæpri viku seinna ef farið er yfir helgi.

Viðmælendur blaðsins eiga erfitt með að gera sér í hugarlund málefnalegar ástæður fyrir slíkri töf, og Bolli Héðinsson, formaður Samtaka sparifjáreigenda, segir slíkt ýta undir tortryggni.

„Fyrirtækin gætu losað sig við óþarfa tortryggni með því einfaldlega að drífa í þessu að koma þessu út. Annars fara kannski á kreik einhverjar sögur um að innherjar hafi notfært sér þetta eða hvað veit maður. Það að hegða sér með þessum hætti býður heim svona umræðu.“

Bolli tekur undir að bætt aðgengi almennings að greiningum og ráðgjöf í fjárfestingum væri til bóta. Hann segir hins vegar erfitt fyrir samtökin að miðla slíku með beinum hætti. Fyrir það fyrsta séu þau samtök allra sparifjáreigenda, ekki aðeins hluthafa skráðra félaga. Þess fyrir utan gæti það sett samtökin í snúna stöðu ef þau miðluðu tiltekinni ráðgjöf beint, og gæfu henni þannig blessun sína.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .