Boðaðar eru jákvæðar fréttir fyrir neytendur og fyrirtæki í nýju fjárlagafrumvarpi fyrir næsta ár, að mati Samtaka atvinnulífsins (SA), sem telja aðgerðirnar hjálpa til við að halda verðbólgu í skefjum og að verð á ýmsum heimilistækjum lækki umtalsvert. Í fjárlagafrumvarpinu eru boðaðar þær breytingar sem eiga að taka gildi á Nýársdag á næsta ári að hærra þrep virðisaukaskatts lækkar úr 25,5% í 24% og lægra þrep skattsins hækka úr 7% í 12% auk þess sem virðisaukaskattstofn verður breikkaður. Samhliða verða almenn vörugjöld á ýmsar heimilisvörur felld niður.

Samtökin segja í tilkynningu í kjölfar þess að Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra kynnti frumvarpið í morgun hafa ítrekað bent á skaðleg áhrif vörugjalda á samkeppni þar sem þau valdi oft verulegu misræmi í verðlagningu sambærilegra vara. Því sé það sérstakt fagnaðarefni að stjórnvöld áformi afnám þeirra. Þá eru hallalaus fjárlög við núverandi aðstæður jafnframt mikilvæg aðgerð til að treysta stöðugleika í efnahagslífinu og á vinnumarkaði.

Of lítill afgangur af ríkisrekstrinum

Samtökin telja engu að síður að aðhald skorti í fjármálum ríkisins og að áætlaður afgangur af rekstrinum á þessu ári og næstu árum verði of lítill. Þá verði ekki annað séð en að ríkisstjórnin hyggist festa í sessi þær skattahækkanir sem núverandi og fyrri ríkisstjórn hafa staðið fyrir frá árinu 2009.

„Ætla má að tekjur ríkissjóðs vegna skattahækkana undangenginna ára nemi liðlega 100 milljörðum króna á næsta ári. Það er nauðsynlegt að vinda ofan af þeim til að tryggja aukinn þrótt í atvinnulífinu og efla nýsköpun, rannsóknir og þróun. Það er besta leiðin til að tryggja hagvöxt, auknar skatttekjur hins opinbera og bæta hag fólksins í landinu,“ segir m.a. í umfjölluninni.