Mikill samdráttur í fjárfestingum atvinnuveganna á síðasta ári og takmörkuð áform um fjárfestingar á árinu 2010 valda því að ástæða er til þess að hafa áhyggjur af þróuninni í atvinnumálum segir í nýrri samantekt hjá Samtökum atvinnulífsins. Óvissa um framtíðina, háir vextir, gjaldeyrishöft, skattahækkanir og minnkandi kaupgeta stuðla almennt að slæmu andrúmslofti fyrir fjárfestingar.

Hjá SA kemur fram að ef dráttur verður á áformum um fjárfestingar í virkjunum og orkufrekum iðnaði á þessu ári eru líkur á því að fjárfestingar atvinnuveganna verði minni í hlutfalli við landsframleiðslu en þær hafa verið frá lokum síðari heimsstyrjaldarinnar.

Fjárfestingar atvinnuveganna námu 9% af landsframleiðslu á síðasta ári en þær hafa numið 13% síðustu tvo til þrjá áratugina. Svo lágt fjárfestingahlutfall hefur ekki sést nema á samdráttarárum á borð við árið 2002 og 1993-1995.

Fjárfestingar atvinnuveganna skapa störf og stuðla að skilvirkni og framþróun í atvinnulífinu. Ljóst er að mikil óvissa einkennir íslenskt atvinnulíf um þessar mundir og að við slíkar aðstæður er erfitt að taka ákvarðanir um fjárfestingar. Fjármögnun framkvæmda er auk þess mjög erfið og dýr.